Óvíst með framhaldið hjá Bjarka og HK

Bjarki Sigurðsson.
Bjarki Sigurðsson. Eva Björk Ægisdóttir

Óvíst er hvort Bjarki Sigurðsson þjálfari HK í Olís-deild karla í handknattleik haldi áfram þjálfun félagsins á næsta ári er liðið mun spila í 1. deildinni. Bjarki er samningsbundinn félaginu til ársins 2016 en segist þó eiga eftir að setja niður með forráðamönnum félagsins um framtíðina. Það muni gerast fljótlega eftir síðasta leik gegn Haukum á morgun.

„Ég er með samning við þá til eins árs í viðbót en ég á eftir að setjast niður með þeim og fara yfir stöðuna varðandi leikmenn og annað,“ sagði Bjarki þegar að mbl.is sló á þráðinn til hans í dag.

HK-liðið er löngu fallið en vann hins vegar Íslands og bikarmeistara ÍBV í síðasta leik. Liðið hefur 9 stig í botnsætinu, átta stigum minna en Stjarnan sem einnig er fallin.

„HK er góður klúbbur og flott fólk í kringum hann. Ég hef alveg áhuga á því og er með samning en þetta skýrist betur eftir síðustu umferð,“ sagði Bjarki spurður um það hvort hann hefði áhuga á að halda áfram með Kópavogsliðið. 

Fallbaráttan í vetur var hins vegar þreytandi en Bjarki hrósaði aftur á móti liðnu fyrir góðan liðsanda.

„Ég neita því ekki að vera í þessari fallbaráttu er þretyandi og tekur á en kosturinn er sá að þessi hópur er mjög góður og samheldinn. Það gefur meira í stað þess að allt fari í hund og kött og menn alveg brjálaðir,“ sagði Bjarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert