„Verðum að spila betri vörn“

Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka.
Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst þetta að mörgu leyti gott. Mínar stelpur voru að leggja sig vel fram, en aftur á móti erum við með ótölulegan fjölda dauðafæra, víti og allan pakkann sem fer ekki í netið. Við áttum að vera löngu komin með gott forskot í þessum leik og það er auðvitað svekkjandi þegar upp er staðið,“ sagði Óskar Ármannsson, þjálfari kvennaliðs Hauka, í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Selfyssingum í Olís-deildinni í handbolta í kvöld.

Sjá: Hrafnhildur skoraði 13 mörk í sigri Selfoss

Selfoss sigraði 28:25 eftir kaflaskiptan leik. Haukar byrjuðu ekki vel í leiknum og Selfyssingar léku á als oddi. Forskot Selfoss varð mest fimm mörk í fyrri hálfleik en Haukar komust yfir í þeim seinni.

„Þegar hrollurinn var farinn þá fórum við að spila betri sóknarleik, Karen Helga [Díönudóttir] kom inn og mér fannst stýringin þá vera betri. Þá náðum við að salla þetta niður hægt og rólega. Svo vorum við bara í jöfnum leik í seinni hálfleik,“ sagði Óskar, sem hefði viljað sjá betri varnarleik hjá sínu liði heilt yfir.

„Þegar upp er staðið þá brenndum við af mikið af dauðafærum en auðvitað verðum við líka að spila betri vörn. Við erum ekki alveg á level þar. Þetta var ótrúlega vandræðalegt á köflum í sókninni hjá Selfossi en einhvern veginn náðu þær alltaf að klastra boltanum í netið.“ 

„Dómgæslan var heldur ekki að hjálpa okkur. Selfoss fékk allan frið í heimi til að spila á meðan það voru dæmd af okkur mörk og engin víti dæmd þegar við vorum í dauðafærum og það var brotið á okkur. Það er búið að ganga brösuglega hjá okkur undanfarið og þá eru svona hlutir ekki að hjálpa til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert