„Á alltaf næga orku“

Helena lætur vaða á markið í úrslitaleiknum í dag.
Helena lætur vaða á markið í úrslitaleiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helena Rut Örvarsdóttir skoraði sigurmark Stjörnunnar þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af bikarúrslitaleiknum gegn Fram í Laugardalshöll í dag. 

Sóknarleikur Stjörnunnar hafði verið stirður í síðari hálfleik en Helena náði að rífa sig upp í gott skot fyrir utan sem reyndist sigurmarkið. „Já já maður á alltaf næga orku. Maður keyrir sig bara áfram og finnur varla fyrir líkamanum,“ sagði Helena í samtali við mbl.is en hún skoraði 6 mörk og var markahæst Garðbæinga. „Við áttum erfitt með að skora í lokin. Ég veit ekki alveg hvað var að, kannski vorum við of ragar. Við skoruðum nógu mörg mörk og það er það sem skiptir máli.“

Helena var ánægð með varnarleik liðsins og hrósaði Hafdísi markverði. „Vörn og markvarsla skipti mestu máli. Við stóðum vörnina vel allan leikinn og tókst að vinna vel með Hafdísi í markinu sem var mjög góð í leiknum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert