Tap gegn Grikklandi í þriðja leik

Sylvía Hálfdánardóttir hefur leikið afar vel fyrir íslenska liðið á …
Sylvía Hálfdánardóttir hefur leikið afar vel fyrir íslenska liðið á mótinu. Ljósmynd / kki.is

Stúlkurnar í U18 ára landsliði Íslands í körfuknattleik léku gegn Grikklandi í þriðja leik liðsins í B deild Evrópukeppninnar sem haldið er í Búkarest í Rúmeníu. Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik, en í seinni hálfleik tóku Grikkirnir öll völd á vellinum. Grikkland leiddi með níu stigum í hálfleik og lokatölur urðu svo 63:43 Grikklandi í vil.

Atkvæðamestar í liði Íslands voru Sylvía Hálfdánardóttir með 12 stig og 11 fráköst og Dagný Lísa Davíðsdóttir með 10 stig og 3 fráköst.

Á föstudaginn spilaði íslenska liðið gegn Lúxemborg og lokatölur í þeim leik urðu 52:41 fyrir Lúxemborg.  Á laugardaginn lék Ísland svo gegn sterku liði Danmerkur sem meðal annars vann Norðurlandamótið nokkuð sannfærandi síðastliðið vor. Danir báru sigurorð af Íslendingum í þeim leik þar sem lokatölur urðu 55-47 Dönum í vil.  

Næsti leikur liðsins er í dag klukkan 15:00 að íslenskum tíma. Ísland mætir þá gestgjöfunum, Rúmeníu sem eru ósigraðar í riðlinum til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert