„Hefði getað gert margt betur“

Sigtryggur Arnar Björnsson með boltann í leiknum í kvöld.
Sigtryggur Arnar Björnsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Sigtryggur Arnar Björnsson átti stórbrotinn leik fyrir Skallagrím gegn KR í DHL-höllinni í kvöld og skoraði 37 stig en það dugði þó ekki til sigurs. KR-ingar fögnuðu sigri 99:92 eftir framlengdan leik. 

Sigtryggur sagði Skallagrím hafa átt möguleika á því að stela sigrinum undir lok venjulegs leiktíma og í framlengingunni en KR var yfir langstærstan hluta leiksins. „Við höfum nánast gert þetta í allan vetur. Við höfum verið undir í mörgum leikjum en oft sýnt góðan karakter og komist inn í leikina. Við getum greinilega gert það því það hefur gerst nokkrum sinnum. Ég sé mikið eftir því að hafa gefið lélega sendingu þar sem við misstum boltann og tók lélegt þriggja stiga skot undir lok framlengingarinnar. Ég hefði getað gert margt betur á lokakaflanum en get ekki tekið það til baka,“ sagði Sigtryggur en hann fékk sína fjórðu villu nokkuð snemma í þriðja leikhluta og þurfti að gæta sín eftir það í vörninni. Honum tókst þó að forðast fimmtu villuna og fór á kostum í sókninni. 

„Ég var ekki sáttur við þá villu. Mér fannst þetta ekki vera villa en dómararnir sáu eitthvað annað. Best að segja sem minnst,“ sagði Sigtryggur en játaði að það hafi verið visst kjaftshögg að vera með fjórar villur á bakinu snemma í síðari hálfleik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert