Er svolítið langt í burtu

Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er svolítið langt í burtu frá Íslandi,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, eftir að hann samdi í gærmorgun við meistaraliðið í Kasakstan, BC Astana, til eins árs.

„Kveikjan að þessu er að þjálfari sem ég þekki vel – ég hef leikið áður undir stjórn hans – tók nýverið við þjálfun liðsins. Hann vildi gjarnan fá mig til liðsins og ég tók því boði,“ sagði Hörður Axel við Morgunblaðið í gær. Hann fer til Kasakstan að loknu Evrópumóti landsliða í byrjun september en höfuðborgin Astana er í miðri Asíu, í austurhluta hins víðfeðma ríkis Kasakstan sem er aðeins með örlítinn skika innan Evrópu.

Hörður Axel segist hafa leikið undir stjórn fyrrgreinds þjálfara, Kostas Flevarakis, hjá gríska liðinu Ariels Trikala fyrir fáeinum árum. Til hafi staðið að þeir yrðu einnig saman hjá Rethymno á Krít í fyrra en þjálfarinn hætti áður en til þess kom.

Hörður Axel lék með Keflavík á síðustu leiktíð en var einnig hluta tímabilsins hjá félagsliðum í Belgíu og á Ítalíu. Hann hefur auk þess m.a. leikið í Grikklandi, Þýskalandi, Tékklandi og á Spáni. Hörður Axel skoraði 15,7 stig að jafnaði í leik með Keflavík á síðasta keppnistímabili auk þess að eiga 6,8 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var stoðsendingakóngur Dominos-deildarinnar.

Sjá allt viðtalið við Hörð Axel í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert