„Erum með tólin til þess að vera í toppslagnum“

Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkinga, leiddi sína menn til sigurs gegn Þór á Akureyri í kvöld í Dominos-deild karla. Lokatölur urðu 85:92 eftir æsilegan lokaleikhluta. Leikurinn var í höndum Njarðvíkinga lengstum en Þór þjarmaði vel að þeim undir lokin.

Logi var ánægður með að hafa landað sigri en hann fékk það hlutverk að slökkva á funheitum Ingva Rafni Ingvarssyni í lokaleikhlutanum en Ingvi Rafn hafði skorað 24 stig í þriðja leikhluta.

Þú ert í pössunarhlutverki í lokaleikhlutanum, að taka Ingva Rafn úr umferð.

„Já það er rétt hjá þér. Hann var sjóðandi heitur í kvöld og skoraði hátt í 40 stig. Það var því nauðsynlegt að reyna að stoppa hann. Ég get alveg spilað góða vörn og fékk því þetta hlutverk og reyndi mitt besta. Ég tel það nú bara gott hjá okkur að hafa komist héðan með sigur eftir að hafa aðeins slakað á í lokaleikhlutanum.“

Þið náðuð mest 22 stiga forskoti og um miðjan lokaleikhlutann var munurinn 15 stig. Þór náði að minnka hann í þrjú.

„Við sáum Keflavík tapa hérna en þeir eru með hörkulið. Það var því ljóst að ef við myndum eitthvað slaka á þá myndum við lenda í vandræðum. Það var einmitt það sem gerðist og Þórsarar nýttu sér það þegar við tókum fótinn aðeins af bensíngjöfinni. Sem betur fer náðum við að halda dampi. Þetta er smá viðvörun fyrir okkur að þegar við erum með leikinn í höndunum þá megum við hvergi slaka á. Bestu liðin klára þannig stöður og við ætlum að vera eitt af bestu liðunum.“

Ég beið eftir að Daníel þjálfari tæki leikhlé á þessum kafla þegar Þór var að ná ykkur.

„Hann ætlaði bara að leyfa okkur að klára þetta. Hann treysti okkur til þess. Stundum er betra að leyfa leikmönnunum að finna sjálfa út úr hlutunum í stað þess að taka leikhlé. Það myndast oft stemning hjá hinu liðinu sem þröngvar manni í leikhlé. Stundum er betra að sleppa því og ég tel ákvörðun hans hafa verið hárrétta.“

Hversu flottur var Snjólfur á lokamínútunum?

„Við erum með marga leikmenn sem geta spilað og marga sem geta skorað. Það sýnir styrkinn okkar þegar hann kemur og klárar leikinn fyrir okkur. Hann skorar þegar við virkilega þurftum körfu og svo klárar hann vítaskotin í lokin. Ég er bara stoltur af okkar ungu leikmönnum. Við erum með marga heimastráka og ég er sáttur við það.“

Þið stefnið væntanlega á toppinn?

„Við eigum að vera með þeim bestu en það þarf að leggja mikið á sig og það þarf margt að ganga upp. Við erum alla vega með tólin til þess að vera í toppslagnum,“ sagði hinn magnaði fyrirliði að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert