Valur og Þór á sigurbraut

Kristófer Acox í baráttunni í kvöld.
Kristófer Acox í baráttunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur og Þór frá Þorlákshöfn unnu í kvöld góða sigra í 21. og næstsíðustu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik.

Valur heldur þar með toppsætinu og er nú með 34 stig, fjórum meira en Njarðvík í öðru sæti. Valsmenn verða deildarmeistarar tapi Njarðvík fyrir Keflavík í kvöld.

Þór er áfram í fimmta sæti, nú með 28 stig.

Valur fékk Breiðablik, sem var þegar fallið, í heimsókn á Hlíðarenda og vann nokkuð þægilegan sigur, 106:94.

Breiðablik var ansi óvænt yfir í hálfleik, 41:43, en í síðari hálfleik sýndi Valur mátt sinn og megin og vann að lokum góðan 12 stiga sigur.

Taiwo Badmus var stigahæstur í liði Vals með 26 stig og fimm fráköst. Kristinn Pálsson bætti við 22 stigum og 11 fráköstum.

Fyrirliðinn Kristófer Acox var þá með 17 stig og 13 fráköst.

Stigahæstur í leiknum var hins vegar Keith Jordan með 36 stig fyrir Breiðablik auk þess sem hann tók sex fráköst.

Næstur á eftir Jordan var Zoran Vrkic með 17 stig og níu fráköst.

Þór slapp með skrekkinn

Þór heimsótti nágranna sína í Hamar til Hveragerði og vann 104:96.

Þór byrjaði af feikna krafti og leiddi með 23 stigum, 35:12, að loknum fyrsta leikhluta.

Hamar, sem er einnig þegar fallið, vel frá sér í öðrum leikhluta en munurinn var 13 stig í hálfleik, 54:41.

Síðari hálfleikurinn þróaðist á svipaðan veg þar sem Þór var með yfirhöndina í þriðja leikhluta en Hamar í fjórða og síðasta leikhluta.

Svo mjög voru heimamenn í Hamar með yfirhöndina í leikhlutanum að þeim tókst að minnka muninn niður í aðeins fimm stig, 96:91, þegar skammt var eftir af leiknum.

Þór stóðst hins vegar áhlaupið og vann að lokum átta stiga sigur.

Nigel Pruitt var stigahæstur í liði Þórs með 23 stig og sjö fráköst. Darwin Davis bætti við 19 stigum og sex stoðsendingum.

Stigahæstur í leiknum var Franck Kamgain með 29 stig og tíu stoðsendingar fyrir Hamar. Dragos Diculescu bætti við 23 stigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert