Pútín verði forseti 2012

Vladímír Pútín og Dmitrí Medvedev ganga í salinn á flokksþingi …
Vladímír Pútín og Dmitrí Medvedev ganga í salinn á flokksþingi Sameinaðs Rússlands í dag.

Dmitrí Medvedev, forseti Rússlands, og Vladímír Pútín, forsætisráðherra, virðast hafa skipt með sér verkum fyrir kosningar á þessu og á næsta ári. Pútín mun bjóða sig fram til forseta á ný en Medvedev verður í forustu flokksins Sameinaðs Rússlands í þingkosningum í desember.

„Ég legg til að framboðslisti Sameinaðs Rússlands vegna kosninga til Dúmunnar (rússneska þingsins) 4. desember verði undir forustu Dmitrís Medvedevs, þjóðhöfðingja," sagði Pútín þegar hann ávarpaði ársþing flokksins í dag.

Medvedev stóð síðan upp og lýsti því yfir, að hann teldi að flokksþingið ætti að styðja framboð formanns flokksins, Vladímírs Pútíns, í embætti forseta Rússlands, en forsetakosningar fara fram í mars á næsta ári. Sjálfur sagðist hann vera reiðubúinn til að taka að sér störf fyrir ríkisstjórnina.

Pútín gegndi embætti forseta Rússlands frá árunum 2000 til 2008 en gat ekki boðið sig aftur fram þar sem rússlenska stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir því að sami maður gegni forsetaembættinu lengur en í tvö kjörtímabil. Medvedev, sem áður var aðstoðarforsætisráðherra  Rússlands og mjög handgenginn Pútín, var kjörinn forseti en Pútín tók við embætti forsætisráðherra.

Miklar vangaveltur hafa verið að undanförnu um hvernig þeir Medvedev og Pútín muni skipta með sér verkum á næsta kjörtímabili en Pútín sagði á flokksþinginu í dag, að það hefðu þeir ákveðið fyrir löngu, raunar fyrir nokkrum árum.  

Dmitrí Medvedev og Vladímír Pútín ræða málin.
Dmitrí Medvedev og Vladímír Pútín ræða málin.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert