Móðirin líka undir grun

Systurnar Somaja, 8 ára, og Rajana, 6 ára, voru á …
Systurnar Somaja, 8 ára, og Rajana, 6 ára, voru á leið heim úr skólanum þegar þeim var rænt.

Báðir foreldrar stúlknanna, sem var rænt í Noregi í gær, eru grunaðir um að hafa beitt þær ofbeldi. Félagsmálayfirvöld úrskurðuðu í desember í fyrra að systurnar, Somaja og Rajana, skyldu teknar af foreldrunum og færðar í umsjá fósturfjölskyldu.

Barnaverndarnefnd taldi að blóðforeldrar stúlknanna hefðu vanrækt þær, en það mál er enn til rannsóknar hjá lögreglu í Ósló að sögn Aftenposten. Bæði hafa þau auk þess sætt ákæru um ofbeldi gegn börnum.

Í kvöld kom fram í norskum fjölmiðlum að móðirin hafi nú einnig réttarstöðu grunaðs, en í gær var aðeins faðirinn nefndur í því samhengi enda birtist hann sjálfur á vettvangi og hindraði fósturforeldrana í að hringja í lögreglu, eftir að tveir grímuklæddir menn höfðu tekið stúlkurnar upp í silfurgráan Toyota Yaris og keyrt burt.

Síðan hefur ekkert spurst til stúlknanna. Móðirin var boðuð til yfirheyrslu hjá lögreglu í dag og neitaði að hafa nokkuð með ránið að gera né vita hvar börnin eru niður komin.

„Við verðum að halda þeim möguleika opnum að [móðirin] hafi líka verið með í þessu, það er að segja átt aðild að málinu með einum eða öðrum hætti,“ hefur NRK eftir lögreglumanninum Iren Johnsen Dahl. Þau hafa því bæði réttarstöðu grunaðra í málinu.

NRK ræðir einnig við réttargæslumann systranna, Brit Kjellevold, sem lýsir áhyggjum sínum. Hún segist óttast að þær verði á nýjan leik þolendur ofbeldis og vanrækslu. „Í fyrsta lagi hef ég áhyggjur af því að þær verði beittar ofbeldi aftur. Í öðru lagi hef ég áhyggjur af því að við vitum ekki í hvaða landi þær eru núna, né hvers konar réttarverndar börn njóta þar.“

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

Vildi nema dæturnar á brott

Ekkert spurst til systranna

Húsleit á heimili föðurins

Systrum rænt í Noregi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert