Hættið að berjast og byrjið að tala“

Ban Ki-moon í Tel Aviv í dag.
Ban Ki-moon í Tel Aviv í dag. GALI TIBBON

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, hvatti Ísraelsmenn og Palestínumenn til þess að stöðva blóðbaðið á Gaza á blaðamannafundi í Tel Aviv í dag. Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, kom einnig fram á fundinum. 

„Skilaboð mín til Ísraelsmanna og Palestínumanna eru þau sömu. Hættið að berjast og byrjið að tala. Það þarf að komast að rót vandans svo við séum ekki á sama stað eftir sex mánuði eða ár,“ sagði Ki-moon. 

Ki-moon sagði jafnframt að það hafi verið „átakanlegt“ að sjá myndir og myndbönd af eldflaugaárásum Hamas á Ísrael og þær þurfi að hætta tafarlaust. Jafnframt sagði hann að öllum þjóðum bæri „alþjóðleg skylda að vernda“ borgara sína. „Stefna Sameinuðu þjóðanna er skýr. Við fordæmum eldflaugaárásir harðlega. Þeim verður að linna.“

Þó benti Ki-moon á að Ísrael þyrfti að beita „hámarks stillingu“ er tala látinna eftir hernaðaraðgerð Ísraelshers í Palestínu nálgast 600. Hann hvatti ríkið til þess að einbeita sér að rótum vandans.  

Á blaðamannafundinum sagði Netanyahu að Hamas bæri ábyrgð á ofbeldinu þar sem það hafi hafið það og neitað vopnahléstilboði í síðustu viku. Að mati Netanyahus þarf alþjóðasamfélagið að taka tillit til þess. 

„Alþjóðasamfélagið þarf að taka skýra afstöðu, það verður að gera Hamas ábyrgt þar sem það hefur enn og aftur neitað tilboðum um vopnahlé. Þeir bæði hófu og viðhalda þessari deilu,“ sagði Netanyahu m.a..

Bætti hann við að Hamas hefði ekki aðeins ráðist á ísraelska borgara heldur einnig „notað palestínska borgara sem mannlega skildi og beint þeim viljandi í áttina að ofbeldinu.“

„Hamas-samtökin eru að fremja tvöfaldan stríðsglæp. Þeir nota borgara okkar sem skotmörk ásamt því að fela sig bakvið sína borgara,“ sagði Netanyahu ennfremur. „Fólkið á Gaza er fórnarlömb Hamas-samtakanna. Þau halda fólkinu í gíslingu og fela sig bakvið það.“

Hamas hafnaði vopnahléstilboði sem Egyptar settu fram í síðustu viku. Sögðust þeir hafa verið útilokaðir frá umræðunni og ekki fengið opinbert tilboð. 

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, var einnig á fundinum.
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, var einnig á fundinum. GALI TIBBON
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert