Unglingsstúlka brennd lifandi

Stefnt er að því að öll indversk heimili hafi klósett …
Stefnt er að því að öll indversk heimili hafi klósett eftir fjögur ár. I AFP

Indversk unglingsstúlka var brennd lifandi af fjórum mönnum í ríkinu Uttar Pradesh í Indlandi um helgina.

Stúlkan, sem lést af sárum sínum, var sautján ára gömul. Fjórir menn réðust á hana og kveiktu í henni er hún fór út til þess að hægja sér, en heimili hennar er ekki með klósett. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á svæðinu höfðu menn í þorpinu sem hún bjó í  áður ráðist á hana fyrir að nota farsíma en þeir töldu það vera siðferðislega rangt.

„Faðir stúlkunnar hefur ásakað mann sem heitir Mukesh og þrjá aðra fyrir að drepa dóttur sína með því að kveikja í henni,“ sagði lögreglustjórinn á svæðinu Akhilesh Chaurasiya. Samkvæmt heimildarmönnum AFP hefur Mukesh nú flúið þorpið. 

Farið var með stúlkuna á sjúkrahús en hún lést næsta dag úr sárum sínum. 

Forsætisráðherra Indlands, Narendra modi, sagði í síðasta mánuði að Indland ætti að stefna að því að öll heimili hefðu klósett eftir fjögur ár. 

Næstum því helmingur Indverja svarar kalli náttúrunnar utandyra samkvæmt sérfræðingum. Það gerir konur sérstaklega berskjaldaðar fyrir sjúkdómum, árásum og áreitni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert