Handtakan bjargaði hrekkjavökunni

Eric Frein var leiddur fyrir rétt í dag.
Eric Frein var leiddur fyrir rétt í dag. AFP

Hægt verður að halda upp á hrekkjavöku í bænum Barret Township í kvöld eftir að meinti morðinginn Eric Frein var handtekinn í gærkvöldi. Frein hafði verið á flótta frá lögreglu í næstum því sjö vikur og valdið miklum ótta í Austur-Pennsylvaníuríki á meðan hann gekk laus.

NBC greinir frá þessu.

Óttinn var það mikill að í bænum Barret Township hafði hrekkjavökunni verið aflýst, en bærinn er aðeins 16 kílómetrum frá Blooming Grove, þar sem talið er að Frein hafi skotið lögreglumann til bana.

Fyrr í mánuðinum var því lýst yfir að öllum viðburðum tengdum hrekkjavöku yrði aflýst í bænum á meðan Frein gengi enn laus. En þar sem hann var handtekinn í gærkvöldi verður haldið upp á hátíðina í kvöld, mörgum eflaust til gleði. 

Samkvæmt frétt NBC hefur lögreglan nú gefið fólki leyfi til þess að ganga í hús og biðja um „grikk eða gott“ en ekki var komið á hreint hvort hrekkjavökuskrúðganga sem átti að fara fram á þriðjudaginn yrði haldin um helgina. 

„Enginn lögreglumaður slasaðist, enginn annar slasaðist. Honum tókst ekki að taka fleiri líf og skaut engan annan svo ég viti. Þetta er það besta sem gæti hafa gerst,“ sagði Megliola.

Á veitingastaðnum Pour House í Barrett Township fagnaði fólk í gærkvöldi. „Við erum svo spennt,“ sagði Annie Grill í samtali vð NBC á veitingastaðnum. „Við bara urðum að fara út í kvöld.“

Elisabeth Pipolo, meðeigandi veitingastaðarins, var ánægð með að fá viðskiptavini, en lítið hefur verið að gera á veitingastaðnum síðan leitin að Frein hófst fyrir sjö vikum. Meðan á henni stóð heyrðist stöðugt í þyrlum og lögreglumenn leituðu Freins á heimilum fólks. 

Frein var handtekinn í gærkvöldi í flugskýli. Hann verður ákærður fyrir að hafa myrt lögreglumann og sært annan lífshættulega er hann hóf skotárás á lögreglustöð 12. september.

Farið verður fram á dauðarefs­ingu yfir hon­um fyr­ir morðið.

Handtekinn eftir sjö vikur á flótta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert