Farið í framlengingu?

Allt þykir nú benda til þess að skammtímasamkomulag sem undirritað var í janúar sl., milli ríkjanna fimm sem eiga fastafulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, auk Þýskalands, og Írans, um kjarnorkuáætlun síðarnefnda, verði framlengt en það rennur út á miðnætti.

Viðræður hafa staðið yfir í marga mánuði en aðilar hafa enn ekki náð saman um helstu ágreiningsefni. Engu að síður verður í dag gerð lokatilraun til að hamra saman langtímasamkomulag, en það myndi binda enda á 12 ára þrætur um vegferð, sem Íranir segja ætlað að tryggja írönsku þjóðinni orku, en vesturveldin telja að muni ná hámarki í íranskri kjarnorkusprengju.

Bráðabirgðasamkomulagið fól m.a. í sér að hluta refsiaðgerða gegn Íran var aflétt, gegn því að Íranir heimiluðu eftirlit alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar á stöðum þar sem kjarnorkutengd starfsemi fer fram. Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í viðtali við ABC í gær, að með langtímasamkomulagi yrði viðamikið mál afgreitt af borðinu, sem gæti leitt til breyttra samskipta, ekki bara milli Írans og Bandaríkjanna, heldur Írans og alþjóðasamfélagsins.

John Kerry, utanríkismálaráðherra Bandaríkjanna, og aðrir háttsettir diplómatar, hafa freistað þess síðustu daga að landa slíku samkomulagi, án árangurs. Háttsettur bandarískur embættismaður sagði í gær að einn þeirra valmöguleika sem nú væru til umræðu, um sólarhring áður en janúarsamkomulagið rynni út, væri framlenging.

Utanríkisráðherra Breta, Phillip Hammond, sagði í gær að aðilar myndu gera lokatilraun til að ná saman í dag. Í því skyni eru samankomnir í Vínarborg utanríkisráðherrar viðkomandi ríkja; Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Kína, Rússlands og Þýskalands.

Stranda á úranauðgun og afléttingu refsiaðgerða

Þrátt fyrir að viðræður hafi þokast í rétta átt er enn langt á milli hvað varðar tvö atriði: úranaugðun og afléttingu refsiaðgerða. Auðgað úran má nota í friðsamlegum tilgangi, s.s. í kjarnorkuframleiðslu, en einnig til að búa til kjarnavopn.

Stjórnvöld í Teheran vilja auðga úran í mun ríkari mæli en þau gera í dag, en vesturveldin vilja þvert á móti takmarka mjög möguleika Írans til að úranauðgunar og flytja uppsafnaðar birgðir úr landi.

Hvað varðar refsiaðgerðirnar vilja Íranar að öllum hömlum á olíuútflutning landsins verði lyft samstundis, en viðsemjendur þeirra vilja hins vegar að þeim verði aflétt í skrefum, eftir því sem Íranar verða við skilmálum mögulegs samkomulags.

Heimildarmaður AFP innan íranska stjórnkerfisins sagði í gær að bráðabirgðasamkomulagið kynni að verða framlengt um sex til tólf mánuði. Ekki liggur fyrir hvernig framlengingu yrði háttað; hvort skilmálar gamla samkomulagsins yrðu einfaldlega látnir gilda áfram eða hvort nýtt skammtímasamkomulag tæki við.

AFP hefur eftir sérfræðingi að varasamt sé að framlengja samkomulagið langt fram í tímann, þar sem margir harðlínumenn, bæði í Teheran og Washington, vilji koma í veg fyrir að aðilar nái saman til lengri tíma. Þá kunna endalausar framlengingar að renna stoðum undir málflutning Ísraelsmanna, sem telja viðræðurnar aðferð Írana til að kaupa sér tíma, á meðan þeir halda áfram undirbúningi að kjarnavopnasmíðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert