Líkindin vekja óhug

Myndin sýnir stillu úr upphafsatriði myndarinnar.
Myndin sýnir stillu úr upphafsatriði myndarinnar. Skjáskot úr Wild Tales

Líkindi milli opnunaratriðis argentínsku kvikmyndarinnar „Relatos salvajes“ og flugslyssins í frönsku Ölpunum fyrr í vikinni hafa vakið mikinn óhug.

„Relatos salvajes“ eða „Villtar sögur“ eins og titillinn útleggst á íslensku var tilnefnd til Óskarsverðlauna í febrúar og hefur verið í sýningum í Bíó Paradís síðustu vikur. Myndin er ekki hryllingsmynd sem slík en sýnir hryllilega atburði í glettnislegu ljósi og hefur verið hrósað fyrir kolsvartan húmorinn. Kvikmyndin var sett í sýningar í Bretlandi í dag og þykir mörgum það óviðeigandi tímasetning að sögn Daily Mail. 

Í fyrsta atriði kvikmyndarinna sjást farþegar flugvélar smám saman komast að því að þeir tengjast allir í gegnum sama manninn. Öll hafa þau gert eitthvað á hans hlut, hvort sem það var af illgirni eða ekki en meðal farþeganna eru t.a.m. gömul kærasta sem hélt framhjá honum og prófdómari sem gerði lítið úr honum. Smám saman rennur upp fyrir fólkinu ljós og það uppgötvar að í læstum flugstjórnarklefanum situr þessi sameiginlegi kunningi sem hefur beint flugvélinni í átt að jörðu. Farþegarnir öskra og gráta og sjást reyna að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefann en síðasta skotið í atriðinu sýnir flugvélina stefna hraðbyri mót jörðu.

Myndin kom út í fyrra og þrátt fyrir að hafa ekki verið sýnd í Bretlandi fyrr en nú hefur hún meðal annars verið í sýningum á Spáni eða í Þýskalandi. Ekki mun vitað hvort Andreas Lubitz, aðstoðarflugmaður Germanwingsvélarinnar, hafi séð myndina. Eins og fram hefur komið er talið ljóst að hann hafi læst flugstjóra vélarinnar útúr flugstjórnarklefanum og í kjölfarið stýrt henni viljandi á fjall og þannig tekið líf sitt og 149 annarra sem voru um borð í vélinni. Talið er að flugstjórinn hafi hugsanlega reynt að brjóta sér leið inn með exi. Á síðustu sekúndum upptökunnar úr flugrita vélarinnar má heyra öskur fórnarlambanna og talið er að þeim hafi því ekki orðið ljóst í hvað stemmdi fyrr en rétt áður en vélin skall á fjallinu.

Hér má sjá brot úr atriðinu sem um ræðir í Wild Tales. Kvikmyndin er byggð upp af smásögum og er byrjunaratriðið ein þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert