Ekki útilokað að fjársjóðslestin sé til

Margt hefur verið skrifað um karlmennina sem í vikunni tilkynntu borgaryfirvöldum í Walbrzych í Póllandi að þeir hefðu fundið brynvarða járnbrautarlest með fjársjóð innanborðs og farið fram á að fá hlutdeild í honum. Sérfræðingur sem danska Extra bladet ræddi við segir að ekki sé útilokað að þeir séu að segja satt.

Sjá frétt mbl.is: Er fjársjóðslest nasista fundin?

„Nasistarnir rændu og ruppluðu miklum verðmætum, listaverkum og gulli, frá öðrum þjóðum í Evrópu. Einhver verðmæti hafa komist í leitirnar eftir stríðið en alls ekki öll. Það er því möguleiki á því að fjársjóðslestin sé til í raun og veru,“ segir Claus Bundgard Christensen, lektor í sagnfræði og sérfræðingur í síðari heimsstyrjöldinni við háskólann í Roskilde.

„Það er þó líka við hæfi að benda á að slíkar fréttir skjóta upp kollinum reglulega. Oftast reynist það ekki rétt,“ bætir Bundgård Christensen við.

Hann nefnir í samtali við blaðið sem dæmi mál Danans Karsten Ree sem eyddi mörgum milljónum danskra króna í að leita að þýskum kafbát, í von um að finna fjársjóð.

„Nasistarnir rændu sérstaklega miklum verðmætum í Sovétríkjunum og í Póllandi. Þjóðarmorðin á gyðingunum höfðu það í för með sér að þeir komust yfir mikil verðmæti. Það er því ekki hægt að útiloka að saga þessara manna reynist rétt,“ bætir Bundgård Christensen við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert