Minnir á umræðuna um gyðinga á flótta

AFP

Zeid Ra’ad Al Hussein sem fer með mannréttindamál hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur fengið sig fullsaddan af orðræðunni í kringum flóttamannastrauminn til Evrópu og segir hana minna helst á umræðuna á ráðstefnunni í Évian árið 1938 þegar umræðuefnið var fjöldi gyðinga á flótta.

Hann segir niðrandi orðalag sem breskir og aðrir evrópskir stjórnmálamenn noti þegar þeir ræði flóttamannavandann sé svipaður því sem var fyrir seinni heimstyrjöldina. Það gerði það að verkum að heimurinn sneri baki við þýskum og austurrískum gyðingum og gerðu nasistum auðveldara fyrir með að koma helförinni af stað.

Zeid Ra’ad Al Hussein segir viðbrögð þeirra oft til háborinnar skammar og án þess að nefna stjórnmálamenn á nafn þá talar hann ítrekað um ummæli Davids Camerons, forsætisráðherra, um flóttamannager (swarms of refugees) og að slík ummæli séu skaðleg.

Í viðtali við Guardian segir Al Hussein að orðræðan sé svipuð nú og á Évian ráðstefnunni þar sem lönd eins og Bretland, Bandaríkin og Ástralíu neituðu að taka við gyðingum sem voru á flótta undan stjórn Hitlers. Ástæðan sem gefin var upp var sú að það myndi koma á óreiðu í þessum þjóðfélögum og hafa slæm áhrif á efnahag þeirra.

Hann fagnar því hins vegar að bresk yfirvöld ætli að taka á móti 20 þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu fimm árum en það sé því miður ekki nóg. Hann bendir á að François Crépeau, sem sinnir mannréttindum flóttafólks hjá SÞ, segir að það sé nærri lagi að Evrópa taki á móti um einni milljón flóttamanna frá Sýrlandi næstu fimm árin.

Viðtalið í heild

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert