N-Kórea sprengdi vetnissprengju

Yfirvöld í Norður-Kóreu greindu frá því morgun að þau hafa sprengt vetnissprengju með góðum árangri í nótt. Greint var frá þessu í ríkisfjölmiðlum í kjölfar skjálfta sem fannst skammt frá helsta kjarnorkutilraunasvæði landsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa boðað til neyðarfundar í öryggisráðinu vegna þessa.

Ráðamenn í Bandaríkjunum boða viðeigandi aðgerðir við hvers konar brölti N-Kóreu en segja of snemmt að segja til um hvort vetnissprengju sé að ræða.

AFP

Samkvæmt fréttum fjölmiðla setti sprengingin af stað skjálfta sem mældist 5,1 stig á jarðskjálftamælum skammt frá Punggye-ri tilraunasvæðinu.

BBC greinir frá því að Norður-Kórea á að hafa gert þrjár kjarnorkutilraunir neðanjarðar síðan árið 2006.

Í vetnissprengju er samruni notaður til þess að mynda sprengingu sem er margfalt öflugri en hefðbundnar atómsprengjur.

 Ekki er langt síðan bandarísk yfirvöld lýstu yfir efasemdum um hvort yfirvöld í Pyongyang segi rétt frá þegar þau sögðust hafa yfir að ræða búnaði sem væri mun öflugri en atómsprengja. 

Talsmaður Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, Ned Price, segir að bandarísk yfirvöld viti af tilraunum Norður-Kóreu á Kóreuskaganum og að yfirvöld þar hafi lýst því yfir að um kjarnorkutilraun hafi verið að ræða. Verið sé að rannsaka hvort það sé rétt í nánu samstarfi við vinaþjóðir á þessum slóðum. Þangað til sé ekki hægt að staðfesta að um vetnissprengju hafi verið að ræða en að Þjóðaröryggisráðið fordæmi öll brot á alþjóðlegum sáttmálum (öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna).

„Við höfum ítrekað lýst því yfir að við munum ekki samþykkja ríkið sem kjarnorkuríki,“ segir Price. Bandaríkin muni áfram vernda og verja samherja sína á þessum slóðum, þar á meðal Suður-Kóreu og að brugðist verði við á viðeigandi hátt við öllum ögrunum af hálfu Norður-Kóreu.

Íbúar á landamærum Kína við Norður-Kóreu hafa verið fluttir á brott eftir að jarðskjálftann sem myndaðist við kjarnorkutilraunir N-Kóreu. Í frétt kínverska ríkissjónvarpsins kemur fram að skjálftinn hafi fundist greinilega á landamærunum og í Yanji hafi borð og stólar hrists til og frá í nokkrar sekúndur. Í einhverjum fyrirtækjum var starfsfólki gert að yfirgefa vinnusvæðin sín. Nemendur í menntaskóla sem voru í prófum voru látnir yfirgefa stofur sínar í öryggisskyni. 

 Efast um að þetta hafi verið vetnissprengja

Kjarnorkusérfræðingar efast um að þetta hafi verið vetnissprengja sem Norður-Kóreumenn sprengdu í nótt og segja að miðað við mælingar á jarðskjálftamælum þá hljóti þetta að vera mun kraftminni sprengja. 

Í síðasta mánuði ýjaði leiðtogi Norður-Kóreu Kim Jong-Un að því að yfirvöld í Pyongyang hefðu þegar framleitt vetnissprengju og voru sérfræðingar fullir efasemda í garð leitogans þá þeim tíma.

Crispin Rovere, sérfræðingur í kjarnorku og kjarnorkuvopnum í Ástralíu, segir að skjálfti upp á 5,1 stig sé of lítill skjálfti til þess að styðja við fullyrðingar stjórnvalda í Pyongyang.

Búast megi við mun meiri skjálfta ef vetnissprengja springur en þetta. Allt bendi hins vegar til að um heppnaða sprengingu kjarnorkusprengju sé að ræða en ekki vetnissprengju.

Tveir dagar eru þangað til Kim Jong-Un á afmæli og segja sérfræðingar að leiðtoginn hafi viljað bjóða upp á eitthvað stórkostlegt í tilefni þess að hann hafi boðað til ráðstefnu flokksins í maí, en það er fyrsta stóra ráðstefna flokksins í 35 ár.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert