Koma upp tjöldum á landamærunum

Tyrkneskir hjálparstarfsmenn eru að setja upp tjaldbúðir og dreifa matvælum til þúsunda Sýrlendinga sem fá ekki að fara yfir landamærin til Tyrklands en talið er að um 35 þúsund manns hafi flúið frá Aleppo í síðustu viku og bíði við landamæri Tyrklands. 

Stjórnarherinn og rússneski herinn gerðu árásir á Aleppo í síðustu viku en borgin hefur verið á valdi uppreisnarmanna. Sótt er að íbúum hennar úr þremur áttum og eru hundruð þúsunda almennra borgara lokuð inni í átökum um borgina.

Tyrknesk yfirvöld hafa hingað til ekki viljað hleypa fólkinu yfir landamærin þrátt fyrir ákall frá leiðtogum Evrópusambandsins þar um. Yfir 2,5 milljónir flóttamanna eru þegar í Tyrklandi. Gríðarlegur fjöldi Sýrlendinga hefur haldið förinni áfram til Evrópusambandsríkjanna en yfir ein milljón flóttamanna kom þangað í fyrra í leit að nýju lífi. Flestir þeirra fóru um Tyrkland og þaðan til Grikklands.

BBC vísar til orða aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, Numans Kurtulmus, sem segir að Tyrkir geti hreinlega ekki tekið við fleiri flóttamönnum, komið sé að þolmörkum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert