„Þú ert að kjósa vitlaust!“

Donald Trump við ræðuhöld í borginni Wichita í Kansas fyrr …
Donald Trump við ræðuhöld í borginni Wichita í Kansas fyrr í dag. AFP

Frambjóðendur halda áfram að berjast um lyklana að Hvíta húsinu í dag þegar Bandaríkjamenn ganga til forkosninga í fimm ríkjum, þar á meðal í Louisiana og Kansas.

Demókratar ganga að kjörborðinu í þremur ríkjum, Kansas, Louisiana og Nebraska. Repúblikanar berjast á sama tíma um fylgi íbúa Kansas, Kentucky, Louisiana og Maine. Þar standa aðeins fjórir frambjóðendur eftir, auðkýfingurinn Donald Trump, öldungadeildarþingmennirnir Marco Rubio og Ted Cruz og ríkisstjóri Ohio, John Kasich.

Marco Rubio reynir ólmur að saxa niður það forskot sem auðkýfingurinn Donald Trump hefur náð í forvali repúblikana á meðan hinum megin gangsins er Hillary Clinton vel á undan keppinauti sínum Bernie Sanders.

Helstu fimm frambjóðendurnir í forkosningunum vestanhafs.
Helstu fimm frambjóðendurnir í forkosningunum vestanhafs.

Á milli mikilvægari keppna

Kosningarnar í dag eiga sér stað mitt á milli mun mikilvægari keppna. Aðeins fjórir dagar eru síðan íbúar tólf ríkja kusu á ofurþriðjudeginum svokallaða og þá munu stór ríki líkt og Florida og Ohio halda forkosningar 15. mars næstkomandi.

Margir helstu framámenn repúblikana óttast að Trump muni fara með sigur af hólmi í forvali flokksins. Hafa þeir að undanförnu reynt í óðagoti að koma á hann höggi og enn fremur reynt að finna þann frambjóðanda sem veitt getur honum hörðustu keppnina.

Líkt og staðan er í dag lítur út fyrir að hvorki Rubio né Cruz ætli að draga framboð sitt til baka og þannig safna andstæðingum Trump undir einn og sigurvænni hatt. Þvert á móti halda þeir ótrauðir áfram og staðhæfa að þeir ætli sér að berjast þar til yfir lýkur.

Því er sá möguleiki fyrir hendi að enginn frambjóðenda muni geta tryggt sér þá 1.237 fulltrúa sem þarf til að hljóta útnefningu repúblikana fyrir ráðstefnu flokksins í júlímánuði. Ráðstefnan gæti því orðið óreiðukennd, þar sem flokksmenn myndu þurfa að ræða sín á milli um hver skyldi hljóta útnefninguna og í kjölfarið etja kappi við frambjóðanda demókrata.

„Þú stafsettir Fuhrer vitlaust“

Alls eru 155 fulltrúar í boði fyrir frambjóðendur í forkosningum repúblikana í dag. Trump hefur nú þegar 329 innan sinna raða en þar á eftir fylgja Cruz með 231 fulltrúa og Rubio með 110. Kasich hefur aflað sér 25.

Til marks um þá spennu sem umlukið hefur uppgang Trump var mikið um átök á fjöldafundi hans í New Orleans í gærkvöldi.

„Ó nei, ekki enn einn annar af þessum. Farðu út. Komið þeim út. Farið héðan, vandræðagemlingar,“ dundi í Trump eftir að mótmælendur höfðu truflað ræðuhöld hans.

Fyrir utan leikvanginn skarst í brýnu milli mótmælenda og stuðningsmanna Trump. Kona ein úr röðum mótmælenda hélt á skilti sem á var letrað „Return of the Fuher“, sem líkast til átti að líkja Trump saman við Hitler.

„Þú stafsettir Fuhrer vitlaust,“ kallaði þá einn stuðningsmaður Trump.

„Þú ert að kjósa vitlaust!“ skaut konan umsvifalaust til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert