Fær óþekkta systirin stöðuhækkun?

Ekki eru til margar myndir af Yo-jung en þessar birti …
Ekki eru til margar myndir af Yo-jung en þessar birti suðurkóreski miðillinn Chosun Ilbo á síðasta ári. Skjáskot af vef The Chosun Ilbo

Á flokksþingi  Verkamannaflokks Norður-Kóreu um helgina er búist við því að systir Kim Jong-un leiðtoga landsins, Kim Yo-jong, muni taka við mikilvægu hlutverki í stjórn landsins. Það hefur ekki mikið farið fyrir systur þessa umdeilda þjóðarleiðtoga en hún er sögð ljúf að eðlisfari og hálfgerð strákastelpa. 

Kim Yo-jong er yngsta dóttir Kim Jong-il og eru hún og Kim Jong-un alsystkini. Hún er fædd 26. september árið 1987 og er sögð vera mjög náin Jong-un sem er fjórum árum eldri en hún. Systkinin bjuggu saman í Bern í Sviss þegar þau gengu þar í skóla á árunum 1996 til 2000. Hún er sögð hafa gifst Choe Song á síðasta ári en hann er sonur Choe Ryong-hae sem er valdamikill ráðherra í Norður-Kóreu.

Suður-Kóreska dagblaðið The Chosun Ilbo sagði frá því í apríl á síðasta ári að Yo-jong væri barnshafandi og ætti von á sér í maí sama ár. Þar segir að sögusagnir um óléttuna hafi komist í fjölmiðla eftir að það sást til Yo-jong með „þrútið andlit og í flatbotna skóm“.

Barneignir Yo-jong hafa aldrei fengist staðfestar af stjórnvöldum í Norður-Kóreu.

Hingað til hefur helsta hlutverk Yo-jong að vernda ímynd bróður síns og spilaði hún lykilhlutverk í áróðursdeild Verkamannaflokksins árið 2014. Hún er sögð stjórna öllum þeim atburðum þegar að leiðtoginn kemur fram opinberlega ásamt því að vera honum pólitískur ráðgjafi.

Hún hefur þó ekki vakið mikla athygli í landinu og birtist sjaldan opinberlega. Þá er lítið vitað um hana. Mátti sjá hana við útför föður síns árið 2011 og þegar að bróðir hennar var settur í embætti árið 2014. Við og við má sjá hana á myndum ríkisfjölmiðilsins þar sem hún gengur á eftir bróður sínum.

Í október á síðasta ári gekk sú saga að Yo-jong hefði verið rekin úr áróðursdeild flokksins af Jong-un fyrir að standa sig ekki nógu vel. Þrátt fyrir það er talið líklegt að hún hljóti nú toppstöðu í ríkisstjórninni. Hefur því verið haldið fram að ríkisstjórnin hafi verið að undirbúa starf fyrir hana frá árinu 2008 þegar að stjórnvöld í landinu voru endurskipulögð eftir að heilsu Kim Jong-il fór hrakandi.

Yo-jung verður 29 ára í haust.
Yo-jung verður 29 ára í haust. Skjáskot af vef CNN

Þá var það meira að segja talið mögulegt á sínum tíma að hún myndi taka við af bróður sínum þegar að Jong-un hvarf almenningi í langan tíma árið 2014.

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un er sagður ætla að veita systur …
Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un er sagður ætla að veita systur sinni stöðuhækkun um helgina. AFP

Yo-jong hefur verið sögð með „ljúft eðlisfar“ og hálfgerð „strákastelpa“. Þá hefur einnig verið haldið fram að hún hafi hlotið verndað uppeldi og að aðrir fjölskyldumeðlimir Kim fjölskyldunnar hafi kynnst henni vel.

Skólayfirvöld í Sviss hafa sagt að Yo-jong hafi verið mjög vernduð af aðstoðarmönnum og lífvörðum þegar hún bjó í Bern. Var til að mynda eitt sinn farið með hana á sjúkrahús útaf vægu kvefi.

Grein BBC um Yo-jong

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert