Kaine formlega útnefndur

Kaine mun taka til máls á landsþinginu í kvöld.
Kaine mun taka til máls á landsþinginu í kvöld. AFP

Demókratar hafa formlega útnefnt Tim Kaine varaforsetaefni Demókrataflokksins, á landsþingi sínu sem nú stendur yfir í Philadelphia. Fallið var frá venju og Kaine útnefndur með fagnaðarlátum í stað atkvæðagreiðslu.

Kaine, 58 ára, er öldungadeildarþingmaður fyrir Virginíu, sem verður barátturíki í komandi forsetakosningum.

Báðir flokkar, Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn, hafa nú útnefnt forseta- og varaforsetaefni sín og ljóst að slagurinn stendur milli Hillary Clinton og Tim Kaine annars vega, og Donald Trump og Mike Pence hinsvegar.

Vonir standa til að Kaine hjálpi Clinton við að ná til karlkyns kjósenda sem standa utan flokka, en hann þykir annars heldur hófsamur og má passa sig á því að tapa ekki fylgi demókrata á vinstri vængnum.

Bernie Sanders, keppinautur Clinton um útnefninguna, hafði lagt til að hún veldi róttækara varaforsetaefni, t.d. Elizabet Warren.

Clinton sagði hins vegar um Kaine að hann væri allt sem Donald Trump og Mike Pence væru ekki.

Varaforsetaefnið var útnefnt með fagnaðarlátum.
Varaforsetaefnið var útnefnt með fagnaðarlátum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert