Kosið um framtíð Skotlands 2019?

Theresa May.
Theresa May. AFP

Þjóðaratkvæði um það hvort Skotland skuli verða sjálfstætt ríki fer ekki fram fyrr en í fyrsta lagi eftir að viðræður á milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr sambandinu hafa skilað niðurstöðu.

Þetta segir Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, en breska þingið þarf að veita samþykki sitt svo slíkt þjóðaratkvæði geti farið fram.

Fyrsti ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon, hefur lýst því yfir að hún vilji boða til annars þjóðaratkvæðis um sjálfstæði landsins en síðast var kosið um málið árið 2014. Þá samþykkti meirihluti kjósenda að vera áfram innan breska konungdæmisins.

Sturgeon telur forsendur hafa breyst síðan þá vegna þjóðaratkvæðisins í Bretlandi síðasta sumar þar sem samþykkt var að ganga úr Evrópusambandinu. Meirihluti skoskra kjósenda kaus hins vegar áframhaldandi veru innan sambandsins.

May segir að tilgangslaust sé að halda þjóðaratkvæði um sjálfstætt Skotland fyrr en viðræðunum er lokið svo skoskir kjósendur viti hvaða valkostum þeir standi frammi fyrir.

Gert er ráð fyrir að viðræðurnar við Evrópusambandið standi fram á árið 2019 og því líklegt að þjóðaratkvæði um framtíð Skotlands fari fram það ár dragist viðræðurnar ekki á langinn.

Nicola Sturgeon.
Nicola Sturgeon. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert