Upplýsa ekki um lausn Svíans

Johan Gustafsson ásamt fjölskyldu sinni í gær.
Johan Gustafsson ásamt fjölskyldu sinni í gær. AFP

Johan Gustafsson, sem var rænt af al-Qaeda í Mali árið 2011, er kominn heim til Svíþjóðar eftir að hafa verið í haldi mannræningjanna í rúm fimm ár. Bæði ríkisstjórn Svíþjóðar og fjölskylda hans hafa staðfest þetta í samtali við sænska fjölmiðla. 

Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, greindi frá komu Gustafsson til landsins í gær en hún neitar að upplýsa um hvernig sænsk stjórnvöld tryggðu lausn hans. Það eina sem hún vildi segja var að þetta hafi gerst fyrir nokkrum dögum og sé niðurstaða margra ára samningaviðræðna. Lögregla stjórnmálamenn, embættismenn og sænsk stjórnvöld sem og erlend, hafi komið að viðræðunum.

Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, greindi frá komu Gustafsson til landsins …
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, greindi frá komu Gustafsson til landsins í gær. AFP

Hún vildi heldur ekki greina frá því hvort lausnarfé hafi verið greitt: „Það er stefna Svíþjóðar að greiða ekki lausnargjald þegar um mannrán er að ræða.“

Samkvæmt upplýsingum AFP-fréttastofunnar frá heimildamönnum innan öryggislögreglunnar í Mali komu yfirvöld þar í landi að lausn fangans í eyðimörkinni í Mali. 

Fjölskylda Gustafsson, sem er frá Värnamo í Suður-Svíþjóð, hefur ítrekað biðlað til mannræningjanna í gegnum fjölmiðla um að láta hann lausan en í gær vildi hún ekki ræða við fjölmiðla.

Móðir hans, Anne-Mari Gustafsson, sagði í samtali við TT-fréttastofuna að sonur hennar væri við góða heilsu. Þau séu þakklát og hamingjusöm. Þau hafi aldrei gefið upp vonina en undir það síðasta hafi þau verið orðin vondauf um að fá hann heim.

Gustafsson, sem er 42 ára, var rænt í Timbuktú í nóvember 2011 ásamt tveimur öðrum, Stephen McGown frá Suður-Afríku og Sjaak Rijke frá Hollandi. Rijke var bjargað í apríl 2015 af sérsveitum franska hersins.

Gustafsson var á mótorhjólaferðalagi frá Svíþjóð til Suður-Afríku þegar honum var rænt. Hann, Rijke og McGown ásamt nokkrum öðrum Vesturlandabúum var rænt af hópi vopnaðra manna þar sem þeir sátu fyrir utan hótel sitt. Eiginkonu Rijke tókst að sleppa en Þjóðverji sem streittist á móti var skotinn til bana.

Frétt DN

Johan Gustafsson, Stephen Malcolm McGown og Sjaak Rijke.
Johan Gustafsson, Stephen Malcolm McGown og Sjaak Rijke. AFP
Johan Gustafsson.
Johan Gustafsson. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert