Sprengdu sjöttu kjarnorkusprengjuna

Kjarnorkuvopnatilraun Norður-Kóreu í nótt er fimm eða sex sinnum öflugri en sú síðasta en sjötta kjarnorkuvopnatilraun þarlendra stjórnvalda var gerð í nótt. Skjálftinn frá kjarnorkusprengingunni mældist 6,3 stig. 

Lee Mi-sun, yfirmaður jarðskjálfta- og eldfjallasviðs Veðurstofu Suður-Kóreu, segir að upptök skjálftans hafi verið í norðurhluta N-Kóreu en þar er helsta eldflaugatilraunasvæði landsins, Punggye-ri.

Fimmta kjarnorkusprengjan var sprengd í september í fyrra og mældist jarðskjálftinn þá 5,3 stig. Fyrsta kjarnorkusprengjutilraun Norður-Kóreu var gerð árið 2006.

Talið er að miðað við stærð skjálft­ans í september hafi sprengj­an verið um 10 kílót­onn. Það er tæp­lega tvö­föld stærð síðustu kjarn­orku­vopna­tilraun­ar Norður-Kór­eu en held­ur minni en atóm­sprengj­an sem Banda­ríkja­menn létu falla á Hiros­hima en sú var 15 kílót­onn.

Á Vís­inda­vefn­um kem­ur fram að kílót­onn er notað sem mæliein­ing á sprengi­kraft kjarna­sprengju. Eitt kílót­onn (kT) jafn­gild­ir sprengi­krafti 1.000 tonna af hefðbundna sprengi­efn­inu TNT (trinitrotulu­en, C7H5O6N3) eða 1012 kal­orí­um sem jafn­gild­ir 4,186 x 1012 J. Eitt kílót­onn er sú orka sem losn­ar við full­komna klofn­un á 56 g af kjarnkleyfu efni. Eitt megat­onn (MT) jafn­gild­ir sprengi­krafti millj­ón tonna af TNT.

Sprengingin í nótt varð aðeins nokkrum klukkustundum eftir að yfirvöld í Norður-Kóreu greindu frá því að þeim hafi tekist að framleiða vetnissprengju sem hægt væri að koma fyrir á nýrri langdrægri eldflaug sem hægt er að skjóta á milli heimsálfa.

Í tilkynningu sem lesin var upp í ríkisfréttastofu Norður-Kóreu kom fram að þau hafi sprengt vetnissprengju í nótt með fullkomnum árangri og að ekki væri vandamál að koma sprengjunni fyrir í langdrægri eldflaug.

Skjálftinn sem fylgdi kjarnorkuvopnatilrauninni fannst víða í norðausturhluta Kína og skalf jörð í einhverjum borgum í átta sekúndur. Skjálftinn fannst alla leið til Changchun borgar sem er í um það bil 400 km fjarlægð frá tilraunasvæði N-Kóreu, Punggye-ri. 

Í borginni Yanji, sem er í 20 km fjarlægð frá landamærum N-Kóreu var skjálftinn svo öflugur að fólk hljóp út af heimilum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert