Klæddi barnastjörnu í lendaskýlu

Nathan Forrest Winters (t.v.) ellefu ára gamall í kvikmynd sem …
Nathan Forrest Winters (t.v.) ellefu ára gamall í kvikmynd sem Victor Salva (t.h.) leikstýrði.

Þegar Nathan Forrest Winters var fimm ára dreymdi hann um að verða stjarna. Er hann var ellefu ára fékk hann stóra tækifærið: Aðalhlutverkið í kvikmyndinni Clownhouse. Um hryllingsmynd í leikstjórn Victors Salva var að ræða og var hún fjármögnuð af Francis Ford Coppola. En þegar stökkt var á myndavélunum fóru hræðilegir atburðir að gerast. 

„Fólk úr hópi leikara og starfsmanna kom til mömmu minnar og sagði að samskipti mín og Victors á tökustað væru ekki í lagi. Það væri eitthvað í gangi,“ segir Winters, sem nú er 39 ára, í einkaviðtali við Sky-sjónvarpsstöðina.

Winters segir að Salva hafi reynt að vingast við sig allt frá því að hann var sex ára. „Þetta ferli fól í sér að vinna ást mína og traust. Að vinna traust foreldra minna,“ útskýrir Winters. Þar kom svo að hann bauðst til að hafa Winter hjá sér á kvöldin svo að foreldrarnir fengju næði. Þetta þróaðist út í það að Winter dvaldi kornungur hjá Salva heilu helgarnar. 

Winters rifjar upp að þeir hafi horft á barnamyndina Jungle Book saman í íbúð leikstjórans. Salva hafi svo farið að tala um lendaskýlu Móglís og sagst geta búið til svoleiðis fyrir Winters. „Hann tók tvær slæður og batt þær saman og bjó til þennan lendaklút og þegar hann var að binda hann á mig þuklaði hann á mér. Þetta er fyrsta minning mín um misnotkunina.“

Ofbeldið hélt áfram í fimm ár. Þegar foreldrar Winters komust að því hvað var í gangi fóru þau beinustu leið til lögreglunnar. Salva var ákærður, sakfelldur og fékk þriggja ára fangelsisdóm. Hann afplánaði um helming hans. 

Winters segir í viðtalinu við Sky að réttarhöldin hafi verið sér mjög erfið. „Hann var með indælan rándýran lögmann. Það var fólk sem fylgdist með okkur. Ég held að tilgangurinn hafi verið sá að gera okkur grein fyrir því að fylgst væri með okkur, að kúga okkur, hræða okkur.“

Í kjölfar dómsins var Salva settur á skrá yfir kynferðisbrotamenn í Bandaríkjunum en það hefur ekki stöðvað hann í því að starfa í Hollywood. Hann skrifaði handrit að kvikmyndinni Powder í fangelsinu og Disney framleiddi síðar þá mynd. Þá leikstýrði hann unglingamyndum eftir þetta. 

Aðra sögu er að segja af Winters. Honum var sagt að hann fengi aldrei aftur starf í Hollywood. Winters segir að margir hafi stutt Salva, m.a. áhrifamikið fólk í kvikmyndaborginni. „Það er eins og það sé einkaklúbbur og Victor er í þeim klúbbi.“

Frá því að konur fóru að stíga fram og segja frá áreiti og ofbeldi af hálfu kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinsteins hefur hulunni verið svipt af fjölmörgum slíkum málum í Hollywood. Mörg þeirra tengjast barnaníði.

Barnastjarnan fyrrverandi Corey Feldman hefur í gegnum tíðina ítrekað sagt frá áreiti sem hann varð fyrir og ofbeldi sem vinur hans, Corey Heim, varð fyrir á barnsaldri. Fáir hlustuðu þar til nú. Feldman er að safna fyrir gerð heimildarmyndar þar sem hann ætlar að afhjúpa málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert