Lífslíkur aukast á ný eftir faraldur

Lífslíkur Bandaríkjamanna aukast á ný eftir heimsfaraldurinn.
Lífslíkur Bandaríkjamanna aukast á ný eftir heimsfaraldurinn. AFP/Mario Tama

Lífslíkur Bandaríkjamanna jukust á ný á síðasta ári eftir að hafa minnkað mikið í heimsfaraldri kórónuveiru. Lífslíkurnar eru þó ekki jafn miklar og þær voru fyrir heimsfaraldur. 

Milli ára jukust lífslíkur um 1,1 ár og má hinn meðal Bandaríkjamaður því búast við að lifa í 77,5 ár. 

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna greindi frá þessum niðurstöðum nú í vikunni. 

Það sem einna helst hefur áhrif á auknar lífslíkur eru færri dauðsföll af völdum kórónuveirunnar. 

Bilið milli karla og kvenna minnkar lítillega

Lífslíkur Bandaríkjamanna minnkuðu um 2,4 ár milli 2019 og 2021. Ástæðuna mátti rekja til andláta af völdum veirunnar. 

Fyrir heimsfaraldur máttu Bandaríkjamenn búast við því að ná 78,8 ára aldri. 

Bilið milli karla og kvenna minnkar núna og munar 5,4 árum nú. Konur máttu búast við því að lifa í 80,2 ár og karlar í 74,8 ár. 

Sjálfsvígstíðni ekki verið hærri síðan 1941

Sjálfsvígstíðni hefur hækkað í Bandaríkjunum milli ára og voru skráð sjálfsvíg á síðasta ári hátt í 50 þúsund, eða 14,3 á hverja 100 þúsund íbúa. Hefur hún ekki verið hærri síðan í seinni heimstyrjöldinni.

Tíðni sjálfsvíga hefur hækkað skarplega frá aldamótum, þó hún hafi lækkað lítillega árin 2020 og 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert