Erfitt að greina sjúkdóma í neyslu

Kjartan J. Kjartansson, yfirlæknir fíknigeðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss.
Kjartan J. Kjartansson, yfirlæknir fíknigeðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss.

Kjartan J. Kjartansson, yfirlæknir fíknigeðdeildar Landspítalans, flutti erindi um samspil geðrænna erfiðleika og vímuefnanotkunar á málþingi Geðhjálpar og Olnbogabarna í morgun.

Kjartan segir geðræna sjúkdóma og fíkniefnavanda nátengda og að meðferð geðsjúkdóma sé mun erfiðari ef einstaklingur er í neyslu, ekki sé nóg að meðhöndla annan sjúkdóminn.

Ungt fólk sem hefur geðrænan sjúkdóm eru mörg hver í neyslu. Geðsjúkdómar unga fólksins eru t.d. ADHD, ODD eða mótþróaröskun, kvíðaraskanir, þunglyndi, viðbrögð við áföllum, geðhvörf og geðklofi. Kjartan segir marga sjúkdómana erfiða að greina og tvinnast þeir saman. Þannig hafi margir fleiri en einn geðsjúkdóm, auk fíkniefnavanda, sem geri heilbrigðisstarfsfólki erfiðara fyrir að greina sjúkdóma.

Fíkniefni lausn á vandanum

„Að greina einhvern í neyslu getur verið mjög erfitt. Neyslan felur oft einkennin og er því erfiðara að staðfesta greiningu,“ sagði Kjartan.

Þeir einstaklingar sem glíma við þennan tvíþætta vanda, geðrænan sjúkdóm og fíkniefnavanda, eiga oft erfitt uppdráttar í lífinu og gengur þeim illa í vinnu og skóla. Það sem þessir sjúkdómar eiga sameiginlegt er að líkur á fíkniefnavanda aukast til muna og eru vímuefni meðal annars notuð til þess að draga úr einkennum geðsjúkdómsins. Fíkniefni eru því ákveðin lausn á vandanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert