Tveir ungir karlmenn ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás

Styrmir Kári

Tveir karlmenn, fæddir 1996 og 1998, hafa verið ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í félagi. Annar þeirra er einnig ákærður fyrir brot gegn lögreglumanni, árás á stúlku og aðra sérstaklega hættulega líkamsárás.

Í ákærunni eru þeir báðir ákærðir fyrir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa í félagi aðfaranótt laugardagsins 16. ágúst 2014 ráðist að karlmanni, sá yngri með því að slá hann með krepptum hnefa í andlitið þannig að hann féll í götuna og í kjölfarið spörkuðu ákærðu báðir ítrekað í höfuð hans þar sem hann lá í götunni. Afleiðingar líkamsárásarinnar urðu þær að hannhlaut aflögun á nefi, brotna framtönn, mar á vinstra eyra og eymsli yfir kinnbeinum. 

Árásin telst í ákærunni varða við 2. málsgrein 218. grein almennra hegningarlaga. Hámarksrefsing fyrir brot gegn umræddri grein er 16 ára fangelsi.

Féll niður stiga við höggið

Þá er eldri árásarmaðurinn einnig ákærður fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. nóvember 2013, slegið stúlku í heimahúsi í Reykjavík með krepptum hnefa í andlitið þannig að hún féll niður stiga í fyrrnefndu húsnæði með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð á vinstri augabrún sem sauma þurfti saman, mar á augnloki og augnsvæði vinstra megin og mar á hægra læri.

Brot hans telst í ákærunni varða við 217. gr. almennra hegningarlaga.

Hann er einnig ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa miðvikudaginn 9. júlí 2014, í strætisvagni sem var kyrrstæður við Hringbraut í Reykjavík, ýtt með báðum höndum í búk lögreglumannsins þegar lögregla hafði afskipti af ákærða í strætisvagninum, sem telst brot gegn valdstjórninni samkvæmt 1. málsgrein 106. greinar hegningarlaganna

Fékk þriggja sentímetra langan skurð

Loks er honum gefið að sök að hafa framkvæmt sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 2. ágúst 2014, á veitingastaðnum Kaffi Amor við Strandgötu á Akureyri slegið mann með krepptum hnefa í andlitið og skömmu síðar fyrir utan sama veitingastað slegið hann aftur í andlitið þannig að hann féll í jörðina og strax í kjölfarið sparkað af miklu afli í höfuð hans. Afleiðingar líkamsárásarinnar urðu þær að fórnarlambið hlaut þriggja sentímetra langan skurð á hvirfli höfuðsins hægra megin við miðlínu sem sauma þurfti saman. Brotið telst í ákæru einnig varða við 2. málgrein 218. greinar hegningarlaga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert