„Var mjög hræddur“

Verjendur í Pókerklúbbsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Verjendur í Pókerklúbbsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Karlmaður, sem ákærður er ásamt tveimur öðrum fyrir að hafa rekið ólöglegt spilavíti í Skeifunni í Reykjavík, sagði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að einungis hefði verið um áhugamannafélag að ræða sem hefði ekki haft neinn hagnað af fjárhættuspili sem þar var stundað. Aðalmeðferð Pókerklúbbsmálsins svokallaðs stendur nú yfir.

Lögreglan gerði húsleit í húsnæðinu þar sem starfsemin fór fram í desember 2012 og voru forsvarsmenn félagsins Poker and Play teknir höndum og í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Auk þeirra voru nokkrir einstaklingar sem staddir voru á staðnum yfirheyrðir. Hinir ákærðu eru einkum ákærðir fyrir að hafa rekið ólöglegt fjárhættuspil í atvinnuskyni, hafa haft ávinning af starfseminni og að hafa fengið aðra til þess að taka þátt í fjárhættuspili.

Sagði lögregluskýrsluna ranga

Maðurinn hafnaði því að vera sekur um það sem fram kemur í ákærunni. Sagði hann ennfremur að lögregluskýrsla, sem tekin var af honum vegna málsins sama kvöld og húsleit lögreglunnar fór fram, væri „alger tilbúningur“ sem væri í engum tengslum við raunveruleikann . Hann hafi aðeins sagt það sem lögreglan hafi viljað heyra. Spurningar hennar hafi verið leiðandi og hann hafi hugsað um það eitt að komast út úr yfirheyrsluherberginu sem fyrst.

„Ég var mjög hræddur,“ sagði maðurinn ennfremur um upplifun sína af yfirheyrslu lögreglunar. Sagðist hann hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi af hálfu lögreglunnar og hafa verið í losti vegna þess hversu ágeng hún hafi verið. Sagði maðurinn ennfremur að þetta ætti ekki aðeins við um skýrslutöku lögreglunnar vegna hans heldur fleiri einstaklinga sem yfirheyrðir hefðu verið vegna málsins. Var honum tíðrætt um þetta í skýrslutökunni fyrir dómi í dag.

Félagið rekið af félagsmönnum

Maðurinn sagðist aðspurður ekki hafa haft neinar tekjur af starfseminni, ekki hafa þegið laun né verið í forsvari fyrir félagið. Félagið hafi verið rekið af félagsmönnum sjálfum sem hafi greitt þann kostnað sem fallið hefði til eins og húsaleigu. Ekkert bókhald hafi fyrir vikið verið fyrir hendi. Hafnaði hann því að sama skapi að áfengi og aðrar veitingar hafi verið seldar á staðnum, félagið hafi haft starfsmenn sem þegið hafi laun og að félagið hafi haft tekjur af starfseminni.

Maðurinn sagði að félagsmenn hafi tekið að sér að vera gjafarar í Póker eða að fá einhvern til þess. Þessir einstaklingar hefðu ekki þegið fyrir það laun en spilarar hafi stundum gefið þeim sem gáfu pening ef þeim gekk vel. Hafnaði hann því að einhver hluti þess hafi gengið til félagsins. Aðspurður sagði hann fleira hafa verið spilað en Póker. Í raun einfaldlega það sem fólk hafi viljað spila. Þar á meðal Black Jack og rúlletta en einnig skák, Backgammon og fleira.

Unnið margar milljónir á netinu

Maðurinn var spurður út í ýmsar fjármagnsfærslur á reikningi hans og fjármál hans almennt. Meðal annars háar greiðslur frá öðrum af hinum tveimur sem ákærðir eru og maðurinn sagði að hefði meðal annars séð um að greiða leigu fyrir húsnæðið. Sagðist hann hafa stundum tekið að sér að greiða leiguna og fleira fyrir hinn manninn þegar sá hefði ekki verið í aðstöðu til þess. Hann hefði síðan fengið það greitt til baka síðar. Einnig til þess að greiða út vinninga.

Maðurinn sagðist sömuleiðis hafa gert öðrum slíka greiða, en saksóknari spurði hann meðal annars út í greiðslur til ýmissa kvenna af erlendum uppruna. Sagði hann þær vera vinkonur sínar eða mæður þeirra. Hann hafnaði því að um hefði verið að ræða starfsmenn félagsins. Spurður um eigin tekjur sagði hann þær einkum hafa komið vegna fjárhættuspils á netinu og þátttöku í ýmis konar lottói. Sagðist hann hafa unnið margar milljónir með þeim hætti til þessa.

Skýrsla lögreglunnar „glórulaus“

Maðurinn var síðan spurður af saksóknara út í lögregluskýrsluna frá 2012. Þar hefði hann meðal annars sagt að félagið hefði að meðaltali haft 6-7 starfsmenn, að þjórfé til gjafara hefði verið skipt á milli þeirra og hússins, hlutur félagsins hafi meðal annars verið notaður til að greiða húsaleigu og að það hafi kostað „helling“ að reka félagið. Ennfremur hafi hann sagt við skýrslutöku að þrír erlendir starfsmenn hafi verið kvöldið sem húsleit lögreglu var gerð.

Maðurinn ítrekaði þá staðhæfingu sína að hann hefði ekki verið í andlegu jafnvægi þegar skýrslutakan hefði farið fram. Hann hefði fyrir vikið aðeins sagt það sem lögreglan hefði viljað heyra og að spurningar lögreglunnar hefðu ennfremur verið mjög leiðandi. Sagði hann ýmist að það sem fram kæmi í lögregluskýrslunni væri fyrir vikið „glórulaust“ eða að hann myndi ekki eftir því að hafa sagt það.

mbl.is/Jim Smart
Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert