Pókerklúbbsmáli slegið á frest

Fólkið er ákært fyrir að hafa rekið pókerklúbb í Skeifunni. …
Fólkið er ákært fyrir að hafa rekið pókerklúbb í Skeifunni. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Fyrirtöku á máli gegn tveimur karlmönnum og konu sem sökuð eru um að hafa rekið pókerklúbb í Skeifunni hefur verið frestað þangað til í apríl. Verjendur fólksins óskaði eftir fresti til að skila greinargerð um málið þegar það var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Það verður tekið fyrir að nýju miðvikudaginn 15. apríl.

Poker and play hét pókerklúbburinn í Skeifunni sem lögregla lokaði eftir umfangsmiklar aðgerðir í desember 2012 og voru forsvarsmenn klúbbsins einnig handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Lögregla hafði áður fengið staðfestar upplýsingar um að staðurinn hefði verið opinn flesta daga vikunnar og spilað væri frá kvöldi og langt fram undir næsta morgun. Einnig hafði lögreglu upplýsingar um að töluverðar fjárhæðir hefðu verið í umferð á spilaborðinu hverju sinni. Einn sakborninga upplýsti lögreglu um það í skýrslutökum að allt að 500 manns hafi verið meðlimir í Poker and play áhugamannafélagi, sem rak pókerklúbbinn.

Þegar gæsluvarðhaldskrafa var sett fram í desember 2012 sagði lögregla að rökstuddur grunur væri um að ábyrgðaraðilar staðarins hefðu aflað sér ávinnings með ólögmætum hætti og tækju sér fé út úr rekstrinum. Jafnframt taldi lögregla rökstudda ástæðu til að ætla að á staðnum og í starfseminni hefði farið fram sala áfengis og annarra veitinga.

Til stuðnings kröfunni sagði lögregla að kominn væri fram rökstuddur grunur um að fólkið hefði framið verknað sem varði allt að 6 ára fangelsisrefsingu.

Fyrri frétt mbl.is: Ákært vegna pókerklúbbs í Skeifunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert