Stór spilasalur og fjöldi myndavéla

Fimm spilaborð ásamt fylgihlutum voru gerð upptæk.
Fimm spilaborð ásamt fylgihlutum voru gerð upptæk. mbl.is

Spilavítið í Skeifunni sem rekið var með ólögmætum hætti og lögregla réðst í húsleit í við árslok 2012 var í stórum sal þar sem voru spilaborð fyrir póker, Black Jack og rúllettu. Til hliðar við salinn var skrifstofa. Þar var bar og eldhús sem búið var helstu rafmagnstækjum og var þar talsvert af matvælum, gosdrykkjum, sælgæti og áfengi.

Þá var húsnæðið búið öryggismyndavélum og ein slík myndavél við inngang hússins tengd við skjá. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dómnum sem kveðinn var upp yfir tveimur karlmönnum, einni konu og félaginu Poker and Play-áhuga­manna­fé­lagi.

Lögregla fékk ábendingu um rekstur ólöglegs spilavítis í húsnæðinu síðla árs 2012 og réðst í húsleit hinn 11. desember sama ár. Þegar lögreglu bar að garði voru 16 manns í húsinu, þar af sátu átta þeirra við pókerspil.

Frétt mbl.is: Fangelsisdómar í spilavítismáli

Tveir karl­menn og ein kona sem ákærð voru fyr­ir að hafa rekið spila­vítið voru dæmd í tólf og níu mánaða skil­orðsbundið fang­elsi í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morg­un. Fólkið var hand­tekið í um­fangs­mikl­um aðgerðum lög­reglu í des­em­ber árið 2012.

Velta á bankareikningi P&P áhugamannafélagsins nam rúmlega 153 milljónum króna á rúmlega tveimur árum, eða á tímabilinu frá því að félagið var stofnað í júní 2010 og fram til 25. október 2012.

Framburður vitna og sakborninga breyttist mikið

Í dómnum er það rakið hversu miklum breytingum framburður vitna og sakborninga í málinu breyttist frá skýrslutöku í framhaldi af aðgerðum lögreglu árið 2012 þar til við aðalmeðferð málsins. Sagði fjöldi vitna að „húsið“ hafi tekið sinn hlut af stórum pottum þegar menn spiluðu póker, en drógu framburð sinn til baka þegar þeir báru vitni við aðalmeðferð málsins.

Var einnig töluvert misræmi í framburði  tveggja ákærðu við skýrslutökur hjá lögreglu og við meðferð málsins fyrir dómi. Lýsti ákærða því fyrir lögreglu að tekið hefði verið „pottagjald“ við pókerspil sem runnið hefði til hússins, ákærði lýsti skiptingu á því sem hann kallaði þjórfé á milli gjafara og hússins, auk þess sem ákærðu báru bæði um að starfsfólk hefði verið á staðnum.

Fyrir dóminum kváðu þau framburð sinn að þessu leyti vera rangan og gáfu þær skýringar að þau hefðu verið undir miklu andlegu álagi við yfirheyrslu hjá lögreglu. Þau lýstu því jafnframt að hafa orðið fyrir þrýstingi af hálfu rannsakenda, auk þess sem spurningar hefðu verið leiðandi.

Taldi dómurinn skýringar ákærðu og vitna á breyttum framburði fyrir dóminum ótrúverðugar og hafnaði þeim. Var framburður þeirra við lögreglurannsókn málsins því lagður til grundvallar eftir því sem hann fékk stoð í öðrum gögnum málsins.

Komin heim fyrir jól

Ákærða gaf þær skýringar fyrir breyttum framburði sínum að lögreglumaður hafi sagt við hana þegar hún var færð til skýrslutöku hjá lögreglu: „Maybe you will go home for Christmas if you will answer correctly what we want to hear.“ Útréttist það sem að hún fengi kannski að fara heim til sín fyrir jól ef hún svaraði því „rétt“ sem lögregla vildi heyra. 

Ákærða sat á þessum tíma í gæsluvarðhaldi stuttu fyrir jól og sagði hún það eitt hafa komist í huga sér að komast heim og hefði hún því samþykkt margt af því sem lögreglan hefði lagt henni í munn við yfirheyrsluna, m.a. að hún tæki peninga úr pottinum þegar hún væri að gefa.

Við skýrslutökur var henni kynnt að vitni hefðu borið um að greitt hefði verið svokallað pottagjald og var hún beðin um að lýsa því. Kvað hún pottagjaldið vera um 3%, eða um 600 krónur fyrir pottinn. Þessi pottur færi í kassann við hlið gjafarans. Byrjað væri að taka af pottinum þegar hann færi yfir 10.000 krónur. Þá væri tekið 3% ef potturinn væri stór, en þó aldrei hærra en 1.000 krónur. Þegar potturinn færi yfir 50.000 krónur væru aftur teknar 300 krónur. Þessir fjármunir gengju til klúbbsins, en gjafarinn fengi þjórfé.

Rúmlega hálf milljón kr. gerð upptæk

Upptæk voru dæmd fimm spilaborð ásamt fylgihlutum, spilapeningum og spilastokkum, peningaseðlar samtals að fjárhæð 551.500 krónur, innstæða að fjárhæð 359.765 krónur, sem var á reikningi á nafni P&P áhugamannafélags, ásamt áföllnum vöxtum, og innstæða að fjárhæð 94.045 krónur sem var á reikningi á nafni P&P áhugamannafélags, ásamt áföllnum vöxtum.

Frá aðalmeðferð málsins í haust,
Frá aðalmeðferð málsins í haust, mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert