Fangelsisdómar vegna spilavítis staðfestir

Verjendur í pókermálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra.
Verjendur í pókermálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. mbl.is/Styrmir Kári

Hæstiréttur staðfesti fangelsisdóma yfir þremenningum sem ráku ólöglegt spilavíti í Skeifunni. Dómur þess sem var talinn höfuðpaurinn var lengdur úr tólf mánuðum í átján en óskilorðsbundni hluti refsingar hans er óbreyttur. Refsing hinna tveggja var skilorðsbundin að öllu leyti.

Fólkið var handtekið í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í desember árið 2012. Velta á bankareikningi P&P-áhugamannafélagsins sem rak spilavítið var sögð nema rúmlega 153 milljónum króna á rúmlega tveimur árum.

Frétt Mbl.is: Stór spilasalur og fjöldi myndavéla

Karlmaður sem var talinn eiga veigamesta þáttinn í brotunum var dæmdur í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember í fyrra en níu mánuðir refsingarinnar voru skilorðsbundnir. Hinir sakborningarnir tveir, karl og kona, voru dæmd í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðbundna.

Fólkið áfrýjaði dómi héraðsdóms en Hæstiréttur staðfesti fangelsisrefsingar yfir því en breytti þeim nokkuð. Þannig var maðurinn sem var talinn hafa mesta hlutdeild í brotunum dæmdur í átján mánaða fangelsi, þar af fimmtán mánuði skilorðsbundna. Fangelsisdómurinn yfir hinum tveimur var skilorðsbundinn að öllu leyti þar sem hlutdeild þeirra var veigaminni og vegna dráttar á málsmeðferðinni.

Hæstiréttur gerði sérstaka athugasemd við þann verulega drátt sem var á málinu. Málsgögn hafi ekki borist réttinum fyrr en átta mánuðum eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Engar haldbærar skýringar hafi verið gefnar á því og taldi Hæstiréttur dráttinn aðfinnsluverðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert