Fangelsisdómar í spilavítismáli

Verjendur í pókermálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í haust.
Verjendur í pókermálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í haust. mbl.is/Styrmir Kári

Tveir karlmenn og ein kona sem ákærð voru fyrir að hafa rekið spilavíti í Skeifunni voru dæmd í tólf og níu mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fólkið var handtekið í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í desember árið 2012.

Þríeykið er sagt hafa verið í forsvari fyrir pókerklúbbinn Poker and Play sem var rekinn í Skeifunni. Annar karlmannanna hlaut tólf mánaða dóm, þar af eru níu skilorðsbundnir. Hinn karlinn og konan hlutu níu mánaða fangelsisdóma, þar af eru sex mánuðir skilorðsbundnir.

Áður en lögreglan lét til skarar skríða gegn starfseminni hafði hún fengið staðfestar upplýsingar um að staðurinn hefði verið opinn flesta daga vikunnar og spilað væri frá kvöldi og langt fram undir næsta morgun. Einnig hafði lögregla upplýsingar um að töluverðar fjárhæðir hefðu verið í umferð á spilaborðinu hverju sinni. Einn sakborninga upplýsti lögreglu um það í skýrslutökum að allt að 500 manns hafi verið meðlimir í Poker and Play-áhugamannafélagi, sem rak pókerklúbbinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert