Mannslíf skipta litlu í leit að hagnaði

mbl.is/Sigurður Bogi

Formaður VM skorar á þingmenn að styðja kröfu starfsmanna ÍSAL um að fá sömu launahækkanir og aðrir hafa fengið á almenna vinnumarkaðnum. „Tökum slaginn við auðhringinn og látum hann finna fyrir að við ætlum ekki að láta vaða yfir okkur,“ skrifar Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, á heimasíðu félagsins.

Guðmundur bendir á að samninganefndir ÍSAL og Rio Tinto Alcan hafi fundað 28 sinnum hjá ríkissáttasemjara án árangurs, síðast í gær. Verkfall hefst í álverinu náist ekki að semja fyrir 2. desember. Guðmundur segir það liggja ljóst fyrir að fyrirtækið ætli ekki að semja, nema þvinga fram umtalsverðar breytingar í þá átt, að koma sem flestum fastráðnum starfsmönnum út og fá verktaka í störfin.

Snýst um alþjóðavæðingu auðhringa

„Þessi svokallaða hagræðing virkar bara í eina átt. Að finna fólk í störfin á lægri launum, aðallega útlendinga sem ekki eru skráðir hér á landi, eins og var gert hjá ÍSAL á þessu ári og þekkist víða í atvinnulífinu í dag,“ skrifar Guðmundur.

Í pistlinum segir hann ÍSAL-deiluna snúast um alþjóðavæðingu auðhringa „sem beita öllum ráðum til að sjúga eins og þeir geta út úr þeim hagkerfum sem þeir starfa í, með því að greiða lág laun, helst enga skatta né aðrar skyldur.“

Hann segir jafnframt að samfélagið verði að átta sig á því að deilan snúist ekki um þau störf sem Rio Tinto vilji í verktöku.  
„Það skilar fyrirtækinu engu í þeirri miklu veltu og litla launakostaði sem þetta fyrirtæki hefur. Enda hefur komið fram í fréttum undanfarið að fyrirtækið er að stórum hluta rekið af utanaðkomandi verktökum, í hinum ýmsu verkefnum,“ skrifar Guðmundur.

„Það verður að stoppa þetta í fæðingu“

Bendir hann á að Íslendingar hafi látið „þessi fyrirtæki“ hafa orku á hagkvæmu verði til að fá þau til landsins. Segir hann þau hafa óhindraða möguleika á að lána sjálfum sér á
„okurvöxtum og komast þannig hjá að greiða eðlilega skatta af hagnaði.“

Bætir hann við að fyrirtækin stjórni öllum verðum erlendis, þar sem þau selji sjálfum sér hráefnið til framleiðslunnar. „Ef láta á eftir þeim að fá vinnuna gefins líka, þá er lítið fyrir okkur að hafa, sem samfélag, af veru þeirra hér. Það verður að stoppa þetta í fæðingu. Hin stóriðjufyrirtækin munu fara sömu leið til að skera niður launakostnað, um leið og þau fá færi til. Eflaust með sömu hótunina að vopni. Hótunina um að ef þau fái ekki sitt fram, muni þau loka, fara,“ skrifar hann.

Mannslíf skipta litlu í leit að hagnaði

Í greininni kallar Guðmundur Rio Tinto „alþjóðlegan auðhring sem á sér viðbjóðslega sögu um allan heim“ þar sem mannslíf skipta litlu í leit að auknum hagnaði.

„Þennan veruleika fáum við nú í andlitið. Við sem samfélag eigum að rísa upp og stoppa þessa aðför að okkur,“ skrifar Guðmundur og segir það jafnframt skaðlegt fyrir íslenskt samfélag að Samtök atvinnulífsins skuli vera farin að ganga erinda auðhringa. „Alþjóðastofnanir hafa varað við þessari þróun og við eigum að hlusta á þær aðvaranir og spyrna við fæti. Það sem þeir vara við er að alþjóðaauðhringir, eins og Rio Tinto, soga ómælt fé út úr samfélögum eins og okkar. Það verður alltaf minna eftir af kökunni fyrir okkur til að reka það samfélag sem við viljum hafa, svo sem góða heilbrigðisþjónustu og menntakerfi.“

Ætti að losa sig við „óhæfa stjórnendur“

Í greininni segir Guðmundur jafnframt að Íslendingar verði að spyrja sig að því hvort við höfum einhvern hag af „fyrirtækjum sem þessum. Við hljótum að geta fengið heilbrigð fyrirtæki til að koma og nýta þá orku sem höfum að bjóða, þannig að báðir aðilar hafi hag af.“

Segir hann það jafnframt óþolandi að Landsvirkjun neiti að veita upplýsingar um forsenduákvæði raforkusamningsins við ÍSAL.
„Ef fyrirtækið þarf að spara í launakostnaði, ætti það að losa sig við eitthvað af þeim óhæfu stjórnendum, sem hafa borið ábyrgð á mörgum af þeim röngu ákvörðunum sem hafa verið teknar í rekstri fyrirtækisins, á undanförnum árum og komið því í þá stöðu, sem það er í dag,“ skrifar hann og bætir við að að sínu áliti hafi framkoma stjórnenda í garð starfsmanna undanfarna mánuði sýnt að „þeirra dómgreind og hæfni dugar ekki til að stjórna fólki og reka fyrirtæki. Sá gegndarlausi heilaþvottur sem hefur verið keyrður af hálfu stjórnenda í þessari deilu er einsdæmi í sögu stéttarbaráttu á Íslandi og sýnir að auðhringurinn ætlar með öllum ráðum að ná sínu fram. Ég finn til með stjórnendum fyrirtækisins að leggja sig svona lágt. En hvað er ekki falt ef greiðslan er nógu há fyrir skítverkin?“

Guðmundur bendir jafnframt á að nú þegar hafi nokkrir stjórnendur fengið nóg og þrír framkvæmdastjórar hafa sagt upp störfum.

„Ef fyrirtækið er að spila þann ljóta leik að nota starfsfólk sitt, sem margt hefur unnið þar í áratugi, til að fá hagkvæmari raforkusamning þá sýnir það skítlegt eðli eigendanna.
Ef þeir ætla að loka, þá ættu stjórnendurnir að hafa kjark að gera það á réttum forsendum,“ skrifar hann og bætir við að yrði það niðurstaðan væri það mikið áhyggjuefni þar sem afkoma  margra er í húfi.

„Það er heldur ekki spennandi kostur fyrir starfsmenn að fara í láglaunavinnu, á launum sem ekki duga fyrir framfærslu. Alþjóðlegir auðhringir skeyta hvorki um mannslíf, einstaklinga, fjölskyldur, samfélög eða annað til að hámarka gróða sinn.“

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert