Áreitti 14 ára stúlki í Kringlunni á öskudag

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður var í gær dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu miskabóta að fjárhæð 300 þúsund krónur fyrir kynferðislegt áreiti gagnvart 14 ára stúlku í Kringlunni á öskudag. 

Manninum var gefið að sök að hafa í rúllustiga milli fyrstu og annarrar hæðar í Kringlunni, tekið utan um stúlkuna, sagt við hana á ensku að hann elskaði hana og kysst hana tvisvar sinnum, fyrst á kinn og svo við munnvik, og er upp á aðra hæð var komið haldið utan um axlir stúlkunnar og gengið áfram með hana og síðar fært hendur sínar niður á bringu stúlkunnar þannig að þær snertu brjóst hennar utanklæða, allt þar til stúlkan losaði sig undan ákærða og flýði á brott. 

Stúlkan kvaðst hafa verið í Kringlunni ásamt vinkonum sínum í svokölluðum „cosy-galla“ sem hafi verið eins og krókódíll í laginu. Hún kvaðst í fyrstu ekki hafa vitað eða séð hver þetta hafi verið og talið það vera einhvern sem hún þekkti, í því hafi hún séð manninn. Hún hafi talið að einungis yrði um þetta eina knús að ræða en maðurinn hafi hins vegar haldið um stúlkuna í rúllustiganum og byrjað að kyssa hana og ítrekað sagt á ensku að hann elskaði hana. Hann hafi fyrst kysst hana á kinnina og hún reynt að víkja sér undan. Ákærði hafi þá sett hönd á höfuð hennar, sveigt það að sér og kysst hana aftur og nú nærri munnviki hennar. Þá hafi þau næstum verið komin upp rúllustigann og hún reynt að losna undan honum. Hann hafi aftur gripið um hana og nú sett hönd á brjóstkassa hennar og síðan fært höndina neðar og á brjóst hennar. Henni hafi tekist að losna frá ákærða og hún, ásamt vinkonu sinni, hlaupið á brott.

Hafi þær farið að versluninni Beautyshop og leitað þar skjóls. Þær hafi sagt starfsfólki hvað gerst hefði og starfsfólk hringt á öryggisvörð. Á þeim tímapunkti hafi henni verið farið að líða illa yfir þessu öllu saman og málið hafi haft mikil áhrif á hana og henni fundist allar snertingar óþægilegar næstu daga. Hún hafi verið hrædd við að vera ein á ferð og ávallt verið á varðbergi. Þá hafi hún fengið martraðir, sem hún hafi ekki átt vanda til.  

Maðurinn skýrði svo frá að umrætt sinn hafi hann verið á ferð í Kringlunni, séð fullt af börnum og að þau hafi verið klædd í búninga og verið búin að mála sig. Á meðal þeirra hafi verði stelpa sem hafi verið í flottum kanínubúningi, honum hafi fundist þetta sætt og hafi ákveðið að knúsa stelpuna. Honum hafi þótt þetta eðlilegt en hann hafi séð að stúlkan var barn. Hann hafi ekkert sagt við stúlkuna heldur einfaldlega tekið utan um hana. Hann hafi talað fallega við hana á sínu tungumáli en hann væri frá Marokkó. Þá kvaðst hann ekki hafa snert stúlkuna nema með faðmlagi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert