Nauðugur sá kostur að stefna

Íbúar hjúkrunarheimilisins Grundar njóta útiveru á góðum degi. Stjórn heimilisins …
Íbúar hjúkrunarheimilisins Grundar njóta útiveru á góðum degi. Stjórn heimilisins er orðin langþreytt á að ríkið vilji ekki ræða greiðslu gjalds fyrir afnot af húsnæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Við viljum auðvitað vera hjúkrunarheimili, en við verðum líka að geta það,“ segir Gísli Páll Pálsson sem situr í stjórn hjúkrunarheimilisins Grundar, sem íhugar nú þann möguleika að breyta hjúkrunarheimilinu í leiguíbúðir fyrir aldraða.

Grund, dvalar og hjúkrunarheimilið Ás í Hveragerði, Hrafnistuheimili Sjómannadagsráðs í Reykjavík og Hafnarfirði stefndu í morgun ríkinu vegna vangoldinnar leigu fyrir afnot af húsnæði heimilanna.

Heimilin hafa árum saman reynt að fá ríkið til viðræðna um greiðslu endurgjalds fyrir að leggja ríkinu til húsnæði undir rekstur hjúkrunarheimila, án þess að hafa árangur sem erfiði.

Forsvarsmenn hjúkrunarheimilanna hafa í mörg ár reynt að ná eyrum ríkisins með málið „En okkur er ekki einu sinni boðið upp í dans,“ segir Gísli Páll. „Tilfinningin er sú að þeir vilji ekki tala við okkur, af því að þeir óttist að þá muni þeir þurfa að borga.“

Ríkið á engan eignahlut í byggingum hjúkrunarheimilanna og voru Grund og Ás m.a. byggð fyrir styrki frá einstaklingum og á síðari árum að litlu leyti fyrir framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Ríkið nýtir engu að síður húsnæði hjúkrunarheimilanna og greiðir með hverjum einstaklingi sem þar dvelur, auk þess að greiða svo nefnt húsnæðisgjald en innifalið í því eru fasteignagjöld, tryggingar, hiti og rafmagn og minniháttar viðhald. Gísli Páll bendir á að stofn-, fjármagnskostnaður eða afskriftir af húsnæðinu falli hins vegar alfarið á heimilin og með því gangi á eigið fé og eignir stofnunarinnar. „Ég segi ekki að heimilin séu farin að drabbast niður, en byggingarnar láta á sjá af því að við fáum ekki þessa peninga.“

Grund var byggð árið 1930 og ekki óeðlilegt að 80 ára gamalt hús þurfi töluverðs viðhalds með.  

Vísar hver á annan

Hjúkrunarheimilin sendu Óttari Proppé heilbrigðisráðherra stefnu vegna málsins, en áður ræddu forsvarsmenn Grundar og Ás við Kristján Þór Júlíusson er hann var heilbrigðisráðherra. „Hann vildi ekki ræða við okkur og við fengum raunar skriflegt svar um að þetta væri ekki á forræði ráðuneytisins.“ Gísli Páll segir Kristján Þór hafa sagt að málið væri  á forræði Sjúkratrygginga Íslands. Sjúkratryggingar segist hins vegar ekki geta greitt húsaleigu því stofnunin hafi ekki lagaheimild til þess, sem Gísli Páll segir ekki vera alls kostar rétt.

Í fréttatilkynningu Grundar vegna málsins segir að ríkið greiðir fjölmörgum aðilum sérstakt gjald fyrir afnot af húsnæði hjúkrunarheimila, sambærileg þeim sem Grund leggur ríkinu til.

Dæmi um það séu hjúkrunarheimili sem sveitarfélög hafa byggt og fjármagnað á undanförnum árum. Gísli Páll nefnir hjúkrunarheimilið á Egilsstöðum sem dæmi. „Þar var byggt hjúkrunarheimili og þar borgar ríkið 85% af vöxtum og byggingakostnaði til 40 ára, en sveitarfélagið 15%,“ segir hann. Sama gildi um Sóltún. „Það fær borgað allan byggingakostnað og vaxtakostnað í sérstöku gjaldi. Þannig að ríkið er sannarlega að borga þennan kostnað bara ekki alls staðar og það finnst okkur ósanngjarnt.“

Geta breitt hjúkrunarheimilum í leiguíbúðir

Svo virðist vera að þar sem að Hrafnistuheimilin, Grund og Ás voru þegar í rekstri þegar ríkið tók yfir málaflokkinn á níunda áratug síðustu aldar þá telji það sig ekki þurfa að borga.

Fyrir vikið séu stjórnir heimilanna nú farnar að velta fyrir sér að breyta rekstrarforminu, en um 700 rými eru hjá þessum stofnunum í dag.

Gísli Páll segir að stofnsamþykkt Grundar kveða á um að Grund beri að veita öldruðum þjónustu. Það komi því  alveg til greina að leigja út íbúðir til 60 ára og eldri og veita þeim þjónustu þannig. „Við gætum þannig alveg hætt að veita hjúkrunarheimilisvist og farið að leigja út íbúðir til eldri borgara. Við viljum það hins vegar ekki. Við viljum vera hjúkrunarheimili en við verðum að geta það,“ segir hann.

„Það sem við viljum er að fá viðræður og semja um þetta. Við viljum ekki þurfa að stefna neinum, en þeir vilja ekki tala við okkur og þá er okkur sá kostur nauðugur að stefna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert