Þórunn Högna býður upp á nýstárlega páskarétti

Páskamarensbomban hennar Þórunnar Högna með sítrónusvampbotni og lemon curd-rjóma sem …
Páskamarensbomban hennar Þórunnar Högna með sítrónusvampbotni og lemon curd-rjóma sem svíkur engan. Hún er borin fram á fallegum kökudiski á fæti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórunn Högna, listrænn stjórnandi og stílisti hjá Icewear, elskar að skreyta fyrir páskana, dekka hátíðarborð og útbúa páskalegar kræsingar sem fanga augu og munn.

Hún deilir hér með lesendum Morgunblaðsins uppskriftum að páskakræsingum sem hún ætlar að bjóða upp á og gefur innsýn í páskaþemað sitt í ár. Þórunn er annálaður fagurkeri og snillingur í að galdra fram fallegar kræsingar fyrir hvers kyns tilefni. Hún nær ávallt að heilla gesti sína upp úr skónum þegar kemur að því að bjóða til veislu enda er hún hugmyndarík og frjó með eindæmum.

Þórunn Högnadóttir stílisti er annálaður fagurkeri og elskar að skreyta …
Þórunn Högnadóttir stílisti er annálaður fagurkeri og elskar að skreyta fyrir páskana. Hún skreytir bæði kræsingarnar sem hún býður upp á og hátíðarborðið með sínu nefi. Ljósmynd/Tinna Stefánsdóttir

Nú þegar páskarnir eru í nánd er Þórunn þegar byrjuð að skreyta og undirbúa hvaða kræsingar verða á boðstólum. Aðspurð segir Þórunn að fjölskyldan borði ávallt saman yfir páskana og þá oftast á páskadag. „Við erum mjög dugleg að prófa nýjar uppskriftir og höldum ekki fast í matarhefðir í tengslum við páskahátíðina. Við förum alltaf upp í sumarbústað og eigum þar notalegan tíma saman í ró og næði. Við snæðum góðan mat og gefum okkur tíma til að nostra við matinn. Síðan er að sjálfsögðu páskaeggjaleit fyrir yngstu kynslóðina, en það er sú hefð sem hefur fylgt okkur lengi,“ segir Þórunn.

Aldrei verið með gult páskaborð

Þegar kemur að því að skreyta fyrir páskana þá fer Þórunn alla leið. „Ég skreyti ávallt og nýti hvert tilefni sem ég fæ til að skreyta heimilið og uppi í sumarbústaðnum okkar. Núna er líka komið svo mikið úrval af fallegu páskaskrauti og kertum í margar verslanir. Ég á það líka til að föndra fyrir páskana, þá er það helst matarborðið sem fær að njóta þess. Til að mynda hef ég oftast skreytt tauservíetturnar, mér finnst það skipta miklu máli og gera borðhaldið skemmtilegra.“ Þórunn breytir reglulega um litaþema þegar kemur að því að skreyta fyrir páskana og í ár eru það guli og kamelliturinn sem fá að prýða páskahátíðina á móti svörtu. „Ég hef aldrei verið með gult páskaborð, en mig hefur alltaf langað til að gera mína útgáfu af hinum eina sanna páskalit. Ég blandaði saman nokkrum gulum tónum, kamel og svörtum lit og útkoman er bara virkilega skemmtileg.“

Há kerti í gulum og kamelbrúnum lit prýða hátíðarborðið hjá …
Há kerti í gulum og kamelbrúnum lit prýða hátíðarborðið hjá Þórunni og lifandi mosi og blóm setja punktinn yfir i-ið. Fallegur bogi er yfir borðinu skreyttur með páskaskrauti, eins og kanínum, eggjum og lifandi blómum. Mosakransarnir frá Magnoliu sem og tauservíetturnar. Kristinn Magnússon

Borðar ekki páskaegg

Oft er talað um páskana sem súkkulaðihátíð og margir missa sig í páskaeggjaáti. Þórunn segir að það eigi ekki við sig. „Ég borða ekki páskaegg og það má sama segja um flesta fjölskyldumeðlimi en jú, hún Leah Mist, 8 ára prinsessan okkar, er mjög hrifin af súkkulaði og er búin að óska eftir Prettyboitjokko-páskaeggi. En ég aftur á móti segi aldrei nei við góðri köku,“ segir Þórunn og hlær. Bernskuminningar Þórunnar koma upp í hugann þegar súkkulaðiátið er rætt. „Ég man vel eftir því þegar við systkinin vorum að leita að páskaeggjunum í náttfötunum, skemmtileg minning, einnig var tekin mynd af okkur þegar allir voru búnir að finna eggin sín.“

Tauservíetturnar fá að njóta sín á matarborðinu en Þórunn skreytir …
Tauservíetturnar fá að njóta sín á matarborðinu en Þórunn skreytir ávallt matarborðið. Hér er hún með tauservíettur í kamelbrúnum lit frá Magnoliu, flauelsborða og lifandi blóm. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eins og áður hefur komið fram leikur matur stórt hlutverk hjá fjölskyldunni um páskana og Þórunn er iðin við að prófa nýja rétti og sérstaklega nýjar kökuuppskriftir. „Mér finnst mjög gaman að prófa nýjar uppskriftir. Ég fékk innblástur af þessum rétti núna þegar ég fór til Manchester með vinahópnum. Ég elska allan mat og kökur sem innihalda sítrónur og kakan sem ég gerði er innblástur frá hinni einstöku Lemon Pound frá Starbucks. Svo finnst mér vera eitthvað við háar kökur,“ segir Þórunn dreymin á svip.

Þessi nýstárlegi og ljúffengi réttur, risarækjur í marinara-sósu er páskarétturinn …
Þessi nýstárlegi og ljúffengi réttur, risarækjur í marinara-sósu er páskarétturinn hennar Þórunnar í ár. Bragðast ómótstæðilega vel með hvítlauksbrauði. Kristinn Magnússon
Fallegar páskarskreytingar hjá Þórunni sem lýsa ákveðinni dulúð og mýkt.
Fallegar páskarskreytingar hjá Þórunni sem lýsa ákveðinni dulúð og mýkt. mbl.is/Kristinn Magnússon
Litlu hlutirnir sem gera svo mikið og glösin fékk Þórunn …
Litlu hlutirnir sem gera svo mikið og glösin fékk Þórunn hjá Epal. mbl.is/Kristinn Magnússon
Guli liturinn fékk loksins að njóta sinn hjá Þórunni en …
Guli liturinn fékk loksins að njóta sinn hjá Þórunni en þetta er fyrsta skiptið sem Þórunn skreytir með gulu og fengu gular rósir að prýða kökuskreytinguna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páskamarensbomba með sítrónusvampbotni og lemon curd-rjóma

Marens

  • 2 botnar
  • 4 eggjahvítur
  • 250 g sykur
  • Gulur matarlitur eftir smekk

Aðferð:

  1. Stífþeytið eggjahvítur, bætið síðan við sykri smátt og smátt.
  2. Bætið loks við matarlit með sleif og blandið varlega saman við.
  3. Setjið í tvö kringlótt form í miðlungsstærð og bakið í ofni við 100°C hita á blæstri í um það bil 120 mínútur eða tvær klukkustundir. 
  4. Leyfið botnunum að kólna í ofninum.

Sítrónukaka

Botn

  • 230 g sykur
  • 180 g hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ¼ matarsódi
  • 3 egg
  • 60 g brætt smjör
  • Salt eftir smekk
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1-2 tsk. sítrónudropar
  • Börkur af ½ sítrónu
  • 100 ml rjómi
  • 50 g sýrður rjómi
  • Safi úr 1-2 sítrónu, eftir smekk

Aðferð:

  1. Þeytið saman egg og sykur.
  2. Bætið síðan við smjöri, rjóma og sýrðum rjóma ásamt vanillu- og sítrónudropum sem og sítrónusafa.
  3. Sigtið þurrefni og bætið út í.
  4. Bakið í spring-formi í ofni við 160°C hita í 60 mínútur.

Síróp til að hella yfir kökuna

  • 50 ml vatn
  • 50 ml sítrónusafi
  • 100 g sykur

Aðferð:

  1. Setjið hráefnið í pott og sjóðið saman.
  2. Þegar blandan hefur soðið saman takið þá pottinn af hitanum og kælið blönduna.
  3. Hellið síðan sírópinu yfir kökuna meðan hún er heit, gott er að stinga göt í kökuna með grillpinna.
  4. Setjið í ísskáp í nokkra klukkutíma eða yfir nótt áður en kakan er skreytt og borin fram.

Lemon curd-rjómi

  • 500 ml rjómi
  • 500 ml jurtarjómi
  • Smá flórsykur
  • 1-2 tsk. lemon curd

Aðferð:

  1. Þeytið rjómann og flórsykur saman. Bætið síðan lemon curd út í með sleif eða sleikju.

Sítrónuglassúr

  • 100 g flórsykur
  • Safi úr einni sítrónu
  • Rifinn sítrónubörkur/eftir smekk
  • Smá rjómi
  • Salt eftir smekk
  • Þórunni finnst gott að setja líka smá vanillu- og sítrónudropa út í.

Aðferð:

  1. Blandið hráefninu saman í skál þar til áferðin er létt og slétt.

Samsetning

  1. Marensbotn fer neðst, næst er rjómablandan sett yfir.
  2. Í kjölfarið er sítrónukakan sett ofan á rjómablönduna.
  3. Rjómablandan er svo sett aftur og þá ofan á sítrónukökuna og svo er kakan toppuð með marensbotni.
  4. Að lokum er glassúrnum hellt yfir. Skreytið með ferskum blómum, greinum og gulum páskaeggjum að vild.

Risarækjur í ítalskri marinara-sósu

Fyrir 4

  • 2 pk. risarækjur, þiðnar
  • 1 flaska pastasósa
  • 1 dós maukaðir tómatar
  • 2-3 tsk. tómat-paste
  • 3 tsk. rautt pestó
  • Parmesanostur eftir smekk
  • Fersk basilíka, smátt söxuð eftir smekk
  • 1 stk. kínahvítlaukur
  • Ólífuolía og smjör til steikingar
  • Smá rjómi eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Sjávarréttakraftur
  • Chili-krydd

Aðferð

  1. Steikið hvítlauk í smá olíu og smjöri, bætið við pastasósu, maukuðum tómötum, tómat-paste og rauðu pestói. Hrærið vel saman þar til suða kemur upp.
  2. Bætið síðan smátt saxaðri basilíku og parmesanosti saman við.
  3. Setjið smá rjóma út í eftir smekk og Þórunn setur ávallt smá sykur en það er valfrjálst.
  4. Kryddið til eftir smekk og látið malla á meðan þið steikið rækjurnar.
  5. Steikið síðan risarækjurnar í ólífuolíu og smjöri á pönnu ásamt hvítlauk í um það bil 4-5 mínútur.
  6. Takið til fjórar grunnar skálar og setjið marinara-sósu í og raðið síðan steiktu rækjunum ofan á.
  7. Skreytið með ferskum basilíkublöðum og rifnum parmesanosti.
  8. Berið fram með hvítlauksbrauði og góðu hvítvíni ef vill.
Páskaskreytingar Þórunnar í anda Magnoliu, en vasinn og skálin eru …
Páskaskreytingar Þórunnar í anda Magnoliu, en vasinn og skálin eru frá Magnolia. Takið líka eftir kransinum, hvað hann gerir mikið með greinunum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Lltlu viðarbrettin undir glösunum koma vel út á páskaborðinu.
Lltlu viðarbrettin undir glösunum koma vel út á páskaborðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert