Schwarzenegger fundar með Sharon

Arnold Schwarzenegger og Ariel Sharon áttu saman fund í Jerúsalem …
Arnold Schwarzenegger og Ariel Sharon áttu saman fund í Jerúsalem í dag. AP

Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu í Bandaríkjunum, hitti í dag Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, að máli og óskaði honum góðs gengis í atkvæðagreiðslu um tillögur hans um brotthvarf frá landtökubyggðum á Gaza-svæðinu.

Schwarzenegger er staddur í stuttri heimsókn í Ísrael og hyggst einnig heimsækja Simon Wiesenthal-safnið. Þetta er fyrsta opinber erlenda heimsókn ríkisstjórans frá því hann tók við embætti. Hann kom til Ísraels í gær.

Á fundinum með Sharon sagði Schwarzenegger að áætlun forsætisráðherrans væri afar mikilvæg og að hann vonast til að hún hlyti samþykki félaga Likudflokksins. Flokksfélagar greiða atkvæði um áætlunina í dag.

Schwarzenegger hefur sagt að saga heimalands hans, Austurríkis, af fordómum hafi orðið til þess að hann ákvað að vera við vígslu sýningar sem helguð umburðarlyndi í Simon Wiesenthal-safninu. Schwarzenegger hefur gefið stofnuninni eina milljón Bandaríkjadala, eða 74 milljónir króna.

Faðir ríkisstjórans var félagi í Nasistaflokknum en Schwarzenegger hefur ætíð leitast við að koma á framfæri andúð sinni á nasistum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert