Rannsóknir benda til að dauðarefsingar dragi úr morðtíðni

Andstæðingar dauðarefsinga í Bandaríkjunum mótmæla.
Andstæðingar dauðarefsinga í Bandaríkjunum mótmæla. AP

Þótt andstæðingar dauðarefsinga í Bandaríkjunum hafi fengið byr undir báða vængi undanfarið, og aftökur verið bannaðar í Illinois og útlit sé fyrir hið sama í New Jersey, hafa rannsóknir undanfarinna ára ítrekað bent til þess að fylgismenn dauðarefsinga hafi mikið til síns máls er þeir segja aftökur hafa fyrirbyggjandi áhrif og fækka morðum.

Höfundar þessara rannsókna segja að hver og ein aftaka dauðamanns komi í veg fyrir allt að átján morð. Andstæðingar dauðarefsinga og margir vísindamenn hafna þessum niðurstöðum og segja að þeim aðferðum og gögnum sem beitt hefur verið við þær sé stórlega ábótavant.

Enn sem komið er hafa þessar umdeildu niðurstöður haft lítil áhrif á stefnu hins opinbera, en fréttaskýrendur telja líklegt að umræða meðal fræðimanna muni hafa áhrif á opinberum vettvangi, eins og dæmin sanni.

Rannsókn sem gerð var 2003, og endurskoðun gagna þrem árum síðar, bentu til að hver og ein aftaka fækki morðum um fimm, og náðun dauðamanns fjölgi morðum um fimm. „Þessar niðurstöður eru afdráttarlausar. Þær verða ekki dregnar í efa,“ segir höfundur rannsóknarinnar,“ Naci Mocan, hagfræðiprófessor við Háskólann í Colorado í Denver. „Ég er andvígur dauðarefsingum. En niðurstöður mínar sýna að dauðarefsingar hafa fyrirbyggjandi áhrif - hvað á ég að gera, fela niðurstöðurnar?“

Samkvæmt rannsókn sem prófessorar við Emoryháskóla í Atlanta gerðu 2003 kemur hver og ein aftaka í veg fyrir að meðaltali 18 morð. Aðrar rannsóknir hafa bent til að aftökur komi í veg fyrir á bilinu þrjú til 14 morð.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem gerð var við Háskólann í Houston hefur aftökubann sem sett var í Illinois fyrir sjö árum leitt til 150 morða sem ella hefðu ekki verið framin.

Cass Sunstein, prófessor við Háskólann í Chicago og kunnur andstæðingur dauðarefsinga í Bandaríkjunum, sagði um niðurstöðurnar að þær bentu til að siðferðilegt mat á réttmæti dauðarefsinga væri í raun erfiðara en hann og fleiri andstæðingar hefðu talið.

„Við höfum ekki tekið nægilegt tillit til þess möguleika að dauðarefsingar kunni að bjarga lífi saklauss fólks,“ sagði Sunstein við fréttastofu AP.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert