Stúdentar með tillögur til lausnar fjárhagsvanda HÍ

Davíð Gunnarsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, afhendir í dag Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra greinargerð varðandi málefni og stöðu skólans. Segir Stúdentaráð að greinargerðin miði að hluta að því að leysa erfiðan fjárhagsvanda sem HÍ eigi við að etja.

Umfjöllunarefni greinargerðarinnar er tvíþætt. Fyrsti hluti hennar miðar að því að leysa núverandi fjárhagsvanda Háskóla Íslands. Stúdentaráð leggur áherslu á að ríkið greiði fyrir alla þá nemendur sem stunduðu nám við skólann á árunum 2001 – 2003 og einnig að einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands verði fellt niður.

Annar hluti greinargerðarinnar fjallar um hvernig megi gera Háskóla Íslands að betri skóla, með það að markmiði að tryggja stöðu hans í fremstu röð. Segir Stúdentaráð að allar aðgerðir í þá átt stuðli einnig að því að fjármögnun skólans til langframa treystist og ætti í raun að vera borgið. Meðal þeirra úrræða sem reifuð eru í greinargerðinni eru aðgerðir sem sagðar eru geta sparað Háskola Íslands stórfé með því að endurbæta kennsluaðferðir. Þannig mætist kröfur um betri Háskóla og hagkvæmari rekstur.

Formaður Stúdentaráðs segist vona að menntamálaráðherra taki greinargerðina til alvarlegrar skoðunar og gerðar verði breytingar til batnaðar.

Í kjölfar þessarar vinnu hefur Stúdentaráð boðið menntamálaráðherra til opins fundar með stúdentum og verður hann haldinn í hádeginu fimmtudaginn 5. febrúar í Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert