Coulthard segist munu keppa fyrir Red Bull

Coulthard (t.h.) og Hamilton sitja hér saman í bíl þótt …
Coulthard (t.h.) og Hamilton sitja hér saman í bíl þótt ekki séu þeir liðsfélagar.

Gangi Fernando Alonso til liðs við Red Bull-fyrirtækið á næsta ári vrður það ekki á kostnað David Coulthard. Því heldur skoski ökuþórinn en hann segist með skotheldan samning um að keppa fyrir Red Bull.

„Ég er 100% viss um að ég keppi fyrir liðið á næsta ári,“ segir Coulthard í dálki sínum á heimasíðu ITV-sjónvarpsstöðvarinnar. „Ég hef aldrei óttast neitt um það, ekki einu sinni þegar lausafregnir um Alonso fóru fyrst af stað.

Samningur minn við Red Bull er bindandi og veitir Red Bull engan rétt til að setja mig í einhvern bíl sem fyrirtækið styrkir,“ bætir Coulthard við.

Hann gagnrýnir Franz Tost, liðsstjóra Toro Rosso, sem austurríska drykkjarfyrirtækið á einnig. Sá ber sumpart ábyrgð á því að orðrómur um að Alonso væri á leið til Red Bull fór sem eldur í sinu um allar jarðir.

„Ég skil með engu móti hvernig honum þótti viðeigandi og án ábyrgðar og án nokkurrar vitneskju um stöðu samningamála, að fjalla svona um annað lið í eigu fyrirtækisins. Ætti hann ekki að einbeita sér að sínum málum í stað okkar?,“ segir Coulthard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert