Bjarni rekinn frá KR

Guðmundur Benediktsson og Bjarni Guðjónsson eru farnir frá KR.
Guðmundur Benediktsson og Bjarni Guðjónsson eru farnir frá KR. mbl.is/Golli

Bjarni Guðjónsson hefur verið rekinn sem þjálfari knattspyrnuliðs KR. Vesturbæingar sitja í níunda sæti Pepsi-deildar með níu stig að loknum níu umferðum. KR féll einnig úr bikarkeppninni eftir tap gegn Selfossi sem leikur í fyrstu deild.

Knattspyrnudeild KR sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í dag:

Knattspyrnudeild KR, Bjarni Eggerts Guðjónsson aðalþjálfari og Guðmundur Benediktsson aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að þjálfararnir láti nú af störfum hjá félaginu.

Ástæða starfsloka er árangur liðsins það sem af er sumri, sem aðilar eru sammála um að hafi verið óviðunandi.

Knattspyrnudeild KR þakkar Bjarna og Guðmundi fyrir ánægjulegt samstarf og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Reykjavík, 26. júní 2016,
Kristinn Kjærnested, formaður stjórnar Knattspyrnudeildar KR


Bjarni Guðjónsson sendir einnig lokakveðju til KR-inga í sömu tilkynningu:

Frá fyrsta degi mínum í starfi sem þjálfari KR hef ég lagt áherslu á að hagsmunir liðsins séu ætíð í forgangi. Eftir slæma byrjun á tímabilinu hef ég ásamt stjórn félagsins, komist að þeirri niðurstöðu að það sé hagsmunum liðsins nú fyrir bestu að ég láti af störfum.

Ég er þakklátur stjórn KR fyrir að hafa treyst mér fyrir þjálfun liðsins. Framtíð KR er björt og ég er sannfærður um að liðið muni komast aftur á toppinn, þar sem það á heima, áður en langt um líður.

Áfram KR,
Bjarni Eggerts Guðjónsson.“

Að sögn Kristins Kjærnested, formanns stjórnar knattspyrnudeildar KR, mun Arnar Gunnlaugsson stjórna æfingu liðsins á morgun en leit er hafin af eftirmanni Bjarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert