Vantaði smá þor og hugrekki

Atli Guðnason
Atli Guðnason mbl.is/Golli

„Við erum nokkuð sáttir með þetta, þetta var drulluerfitt og Slóvenarnir eru mjög góðir. Við erum sáttir við 1:0 og við komum hingað til að eiga möguleika í seinni leiknum og það tókst," sagði Atli Guðnason, leikmaður FH, eftir 1:0 tap liðsins fyrir slóvenska liðinu Maribor í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. 

Atli var þokkalega sáttur við frammistöðuna í kvöld og þá sérstaklega varnarleikinn. 

„Við spiluðum allt í lagi, við vorum sterkir varnarlega en við eigum mikið inni sóknarlega. Okkur tókst ekki að halda boltanum alveg nógu vel og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Við komumst í álitlegar sóknir nokkrum sinnum í fyrri hálfleik. Það vantaði smá þor og hugrekki til að klára sóknirnar með skoti og að reyna á markmanninn."

„Ég veit það ekki," sagði hann aðspurður hvernig möguleikinn í seinni leiknum væri. „Þeir eru með betra lið en við en það getur allt gerst í fótbolta. Líkurnar eru hins vegar með þeim."

Marcos Tavares skoraði sigurmark leiksins í seinni hálfleik þegar hann skallaði boltann í netið af stuttu færi þegar varnarmenn FH voru hvergi nærri. 

„Miðvörðurinn þeirra hleypur upp með boltann frá miðjunni og að teignum okkar og við náðum ekki að tala um hver ætti að mæta honum og stöðva hann. Þess vegna nær hann að senda boltann fyrir og ég veit ekki hvar klikkar þar, kannski samskiptaleysi eða eitthvað annað. Hann var aleinn á fjærstönginni og þetta var mjög góður skalli framhjá Gunna."

Slóvensku áhorfendurnir létu vel í sér heyra í kvöld. Atli segir að þeir hafi verið orðnir nokkuð pirraðir. 

„Það er alltaf stemning þegar svona margir mæta. Það voru læti í þeim, þeir voru pirraðir því við vorum að tefja og hægja á leiknum og ég held að leikmennirnir hafi orðið það líka. Ef við náum að halda slíku í seinni leiknum þá eigum við möguleika," sagði Atli að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert