Grindavík hættir með átta yngri flokka

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur lagt niður samtals átta yngri flokka vegna stöðunnar í bænum, en félagið gaf út tilkynningu á Facebook í dag.

Iðkendur yngri flokka félagsins eru nú á víð og dreif á höfuðborgarsvæðinu og forsendur til að halda áfram starfi þeirra brostnar.

„Það er með mikilli sorg að við þurfum að gefa það út að yngri flokka starfið okkar í 7., 6., 5. og 4. flokki karla og kvenna verður aflagt frá og með 1. maí næstkomandi," segir í tilkynningunni.

Er þessi ákvörðun tekin þar sem mætingasókn hefur dalað mjög mikið frá áramótum, mæting í leiki er alls ekki góð, félagaskiptum í önnur félög fjölgar og allar forsendur fyrir áframhaldandi starfi ekki lengur fyrir hendi.

Þar sem forsendur okkar breyttust mikið í janúar og fjölskyldur ekki á leiðinni heim til Grindavíkur í vor eins og vonir stóðu til að þá eru allar forsendur til að halda þessu starfi áfram brostnar,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Starf í öðrum og þriðja flokki mun halda áfram, meðfram meistaraflokksstarfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert