Vill Benzema frammi með Zlatan

Karim Benzema glaður í bragði á æfingu hjá Real Madrid, …
Karim Benzema glaður í bragði á æfingu hjá Real Madrid, undir stjórn Zinedine Zidane. AFP

Samkvæmt enskum miðlum er útlit fyrir að Svíinn Zlatan Ibrahimovic verði fyrsti leikmaðurinn sem José Mourinho fái til Manchester United eftir ráðningu Portúgalans í knattspyrnustjórastöðu félagsins.

Búist er við því að Mourinho verði kynntur sem stjóri United fyrir vikulok. Hann hefur áður starfað með Ibrahiomivc hjá Inter Mílanó og virðist afar líklegt að þeir endurnýi kynnin hjá United, þrátt fyrir að Ibrahimovic sé sagður fara fram á 200.000 pund í vikulaun, um 37 milljónir króna, og átta milljónir punda í bónus fyrir að koma til United, en hann er samningslaus eftir veru sína hjá PSG í Frakklandi.

Breska blaðið Independent segir að Mourinho sé þar að auki búinn að ákveða hvaða framherja hann vilji helst fá til viðbótar við Zlatan. Þar er einnig um að ræða fyrrverandi lærisvein Mourinhos; franska framherjann Karim Benzema hjá Real Madrid. Þörf sé á tveimur framherjum hjá United þar sem Wayne Rooney vilji færa sig alfarið í stöðu miðjumanns.

Benzema skoraði 79 mörk í 150 leikjum undir stjórn Mourinhos og var lykilmaður í huga Portúgalans. Hann mun sjálfur hafa afþakkað boð í gegnum tíðina um að koma í ensku úrvalsdeildina og er í viðræðum við Real Madrid um nýjan samning, svo United bíður erfitt verkefni ætli félagið að klófesta kappann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert