Ágúst tók gullið í Moldóvu

Ágúst, Helgi þjálfari og Kristmundur fyrir utan keppnishöllina í Moldavíu.
Ágúst, Helgi þjálfari og Kristmundur fyrir utan keppnishöllina í Moldavíu. Ljósmynd/Helgi Rafn Guðmundsson

Um helgina kepptu taekwondo-kapparnir Kristmundur Gíslason og Ágúst Kristinn Eðvarðsson á Moldova Open-mótinu. Moldova Open er svokallað G-mót en á þeim er hægt að vinna sér inn stig til að komast á Ólympíuleikana.

Ágúst Kristinn keppti í unglingaflokki á laugardeginum. Hann gerði sér lítið fyrir og vann sinn flokk örugglega og vann til gullverðlauna. 

Kristmundur keppti svo í fullorðinsflokki á sunndeginum. Kristmundur var í hörkubardaga við serbneskan landsliðsmann og lenti í því óláni að meiðast í bardaganum. Hann komst því ekki áfram í þessum sterka flokki.

Kristmundur og Ágúst æfa með Keflavík og eru í íslenska landsliðinu í taekwondo. Þeir hafa náð langt innanlands en þeir eru báðir margfaldir Íslands- og bikarmeistarar með sínu sigursæla liði Keflavík. Einnig hafa þeir náð marktækum árangri erlendis. Báðir hafa unnið Opna skoska meistaramótið, Kristmundur var í 5. sæti á EM-21 og HM unglinga, þá hefur Ágúst náð þremur Norðurlandameistaratitlum og unnið til verðlauna á Evrópumóti unglinga. Þeir stefna báðir hátt en þetta mót er liður í undirbúningi þeirra fyrir stórmót.

Kristmundur verður meðal keppenda á heimsmeistaramóti fullorðinna sem haldið verður í Suður-Kóreu í sumar. Ágúst stefnir svo á að keppa á Evrópumóti unglinga sem haldið verður á Kýpur í haust. Báðir hafa þeir verið útnefndir taekwondomenn Íslands ásamt ótal öðrum viðurkenningum og sigrum. Þessir öflugu íþróttamenn eru því augljóslega mikil efni fyrir framtíðina.

Enn sem komið er hefur Íslendingur ekki verið á meðal keppenda í taekwondo á Ólympíuleikunum. Það þykir með erfiðari greinum til að komast inn á, en eingöngu 16 bestu keppendur heims komast inn í hverjum flokki en á heimslistanum eru mörg þúsund manns og heildarfjöldi iðkenda í taekwondo  á heimsvísu er yfir 70 milljónir manns.

Tveir Íslendingar hafa verið ansi nálægt því að komast á leikana og það eru Björn Þorleifsson og Meisam Rafiei. Kristmundur Gíslason hefur sett stefnuna á leikana í Tókýó 2020 og æfir stíft til að ná því markmiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert