Alexander mættur eftir kinnbeinsbrot

Alexander Petersson var markahæstur hjá Löwen í kvöld þegar liðið …
Alexander Petersson var markahæstur hjá Löwen í kvöld þegar liðið vann Magdeburg í meistarakeppninni í Þýskalandi. Adam Jastrzebowski / Foto Olimpik

Alexander Petersson mætti galvaskur til leiks í kvöld eftir kinnbeinsbrot og var markahæstur þegar þýska meistaraliðið Rhein-Neckar Löwen vann Magdeburg, 27:24, í viðureign meistara og bikarmeistara síðustu leiktíðar í þýska handboltanum í SAP-Arena í Mannheim. 

Alexander skoraði sjö mörk í leiknum. Aðeins eru þrjár vikur síðan hann kinnbeinsbrotnaði í æfingaleik með Löwen. 

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk, þar af fimm úr vítaköstum, í fyrsta leik sínum með Löwen-liðinu í fimm ár. Hann gekk til liðs við liðið í sumar til að fylla skarð Uwe Gensheimer sem gerðist liðsmaður frönsku meistaranna, PSG.

Löwen var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda, m.a. munaði fimm mörkum á liðunum í hálfleik, 17:12. Aðeins dró saman með liðunum í síðari hálfleik. 

Keppni í þýsku 1. deildinni hefst á föstudagskvöldið þegar Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í Füchse Berlin, þar á meðal Bjarki Már Elísson, mæta Wetzlar á útivelli. 

Löwen og Magdeburg mætast á nýjan leik á sama stað á laugardaginn í deildarkeppninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert