„Það er enginn eins og hann“

Hér má sjá mynd sem ljósmyndari náði af parinu á …
Hér má sjá mynd sem ljósmyndari náði af parinu á æfingu í fyrradag. Ljósmynd/Jón Björnsson

Jóhanna Margrét Snorradóttir og Bárður frá Melabergi keppa fyrir Íslands hönd í fjórgangi og í tölti á HM íslenska hestsins sem fram fer í Hollandi um þessar mundir. Mbl.is ræddi við Jóhönnu um komandi átök, en þau hefja leik með forkeppni í fjórgangi á morgun.

Jóhanna segir Bárð hafa verið ótrúlega brattan eftir ferðalagið, en það er ekki á hverjum degi sem hross ferðast með fragtflutningum út fyrir landsteinana. Þá hafa æfingar gengið vel hjá parinu. „Bárður er búinn að vera í mjög góðum gír.“  

Reynir að njóta

Jóhanna og Bárður eru ríkjandi Íslandsmeistarar í bæði fjórgangi og tölti, en þau sigruðu báðar greinar á síðasta Íslandsmeistaramóti með talsverðum yfirburðum. Eru þau því vonarstjörnur íslenska landsliðsins, ef svo má að orði komast, og talsverðar væntingar til frammistöðu þeirra á mótinu. 

Spurð hvort hún finni fyrir mikilli pressu segir Jóhanna: „Já og nei, ég set auðvitað mikla pressu á sjálfan mig en svo ætla ég líka bara aðeins að reyna njóta þess að klára þetta mót með þessum frábæra og einstaka hesti.“

Þarf að pæla vel í hverri og einni þjálfunarstund

Jóhanna segir það geta verið kúnst að finna jafnvægið þegar verið er að undirbúa fyrir og keppa í tveimur greinum samtímis. „En við erum orðin vel rútíneruð í báðum þessum greinum og höfum fundið ágætis jafnvægi á því að undirbúa báðar greinar. Stundum tekst það mjög vel og stundum finnur maður að eitthvað atriði hefði þurft að þjálfa meira þegar á hólminn er komið. Það er ekki alltaf orka til að þjálfa öll atriðin í einni þjálfunarstund svo maður þarf að pæla vel í hverri og einni þjálfunarstund.“

Spurð hvort hún bindi meiri vonir við fjórganginn eða töltið segist hún trúa því að þau geti staðið sig vel í báðum greinum, gangi allt að óskum. 

„Hann er svo jafnvígur að það er ekki hægt að velja sér uppáhalds grein með hann. Ég bind því miklar vonir við báðar greinar.“

Mun meira áreiti fyrir hestana

Jóhanna segir talsverðan mun vera á því að keppa á stórmótum erlendis, samanborið við íslensk mót.

„Hér snýst allt um einn hest. Heima er maður oft með fleiri hesta, í öðrum eða sömu greinum. Aðstæður eru líka mjög ólíkar, hér eru allir á sama staðnum. Lítið svæði annað en upphitunar og keppnissvæði til að þjálfa dagana fyrir en heima hefur þú svo mun fleiri möguleika á þjálfunarsvæði. Einnig er þetta mun meira áreiti fyrir hestana, áhorfendur alveg í kringum völlinn og oft góð stemmning í stúkunni sem fer misvel í hestana.“

Mikill karakter og stoltur

Spurð hvernig hún undirbúi sig á keppnisdegi segist Jóhanna leggja upp úr því að halda sér og hestinum í góðum gír. „Ég fer í göngutúr með hann og leyfi honum aðeins að bíta gras og set heyrnatól í eyrun og set góðan playlista í gang og hugsa um hvernig ég ætla að gera þetta þegar á hólminn er komið.

Jóhanna lýsir Bárði sem einstökum hesti. „Það er enginn eins og hann. Frábært geðslag, mikill karakter, stoltur, mikil gæði í öllum gangtegundum og fasmikill.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert