Sara og Jóhanna tóku sitthvort gullið á HM í dag

Flóki og Sara fagna titlinum með skeiðsprett við mikinn fögnuð.
Flóki og Sara fagna titlinum með skeiðsprett við mikinn fögnuð. Ljósmynd/Jón Björnsson

Jóhanna Margrét Snorradóttir og Bárður frá Melabergi eru heimsmeistarar í tölti. Er þetta því í fjórtánda skipti sem knapi frá Íslandi vinnur tölthornið eftirsótta og sjöunda mótið í röð.

Í tölti T1 eru þrjú atriði sýnd, fyrst hægt tölt, svo hraðabreytingar og loks greitt tölt. Jóhanna og Bárður stóðu sig með eindæmum vel og voru ákaflega jafnvíg í öllum atriðum sem skilaði þeim að lokum einkunnina 8,94. Sænska parið Sys Pilgaard og April frá Tyrevoldsdal lentu í öðru sæti með  einkunnina 8,72  en þær hlutu þær eina tíu fyrir greitt tölt. Viðar Ingólfsson og Þór frá Stóra-Hofi hlutu einkunnina 8,22 og enduðu þar með í fjórða sæti.

Sara og Flóki tóku fimmganginn 

Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki frá Oddhóli eru heimsmeistarar í fimmgangi með 7,9 í einkunn. Skeiðsprettirnir voru það sem stóð upp úr í þeirra sýningu og innsiglaði sigur þeirra.

Í öðru sæti var hinn austurríski Pierrre Sandsten Hoyos á Búa frá Húsavík. Þeir leiddu fram að skeiðinu, þegar Sara og Flóki sigldu fram úr þeim. Þorgeir Ólafsson og Goðasteinn frá Haukagili sigruðu B-úrslitin í gær og unnu sér þar með inn þátttökurétt í úrslitunum. Enduðu þeir í 6. sæti en stóðust ekki læknisskoðun og hljóta því ekki einkunn.

Grátlega nærri sigri 

Í fjórgangi fullorðinna sigraði hin þýska Frauke Schnenzel á Jódísi frá Kronshof, með eonkunnina 8,03. Grátlega nærri þeim enduðu þau Jóhanna Margrét og Bárður með einkunnina 8,0. Úrslitin voru gífurlega spennandi þar sem þau urðu einskonar einvígi milli þessara tveggja para og því þorðu hvorki Þjóðverjar né Íslendingar að fagna fyrr en niðurstöðurnar voru lesnar upp.

Það var þó orðið ljóst í fyrradag að Jóhanna Margrét væri heimsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum fullorðinna og er hún því tvöfaldur heimsmeistari eftir daginn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert